Íslenski boltinn

Willum Þór: Gleymdum okkur í dekkun í eitt skipti

Valur Smári Heimisson skrifar
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur.
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur. Mynd/Vilhelm
Willum Þór Þórsson, þjálfari Keflavíkur var nokkuð sáttur við leik sinna manna þrátt fyrir 1-2 tap á móti ÍBV í Vestmannaeyjum í dag. Keflvíkingar stjórnuðum leiknum nær allan fyrri hálfleikinn og byrjuðu síðari hálfleikinn einnig betur en það dugði þeim ekki til að taka stig á Hásteinsvellinum.

„Það er sárt að hafa kastað frá stigi eða jafnvel stigum hér í dag. Við vorum betri í fyrri hálfleik en náðum ekki að skora. Við vorum ákveðnir að koma af krafti inn í seinni hálfleikinn því við vissum að þeir myndu ekki gefa eftir. Við gerðum það, við vorum líklegri og betri og náðum svo að skora," sagði Willum Þór.

„Þá fór þjálfari þeirra í að breyta skipulaginu, setja fleiri menn í sóknina og það hefði auðvitað átt að gefa okkur færi, sem það gerði þegar við fengum dauðafæri í stöðunni 1–1. Við héldum ágætlega sjó í seinni hálfleik en misstum aðeins einbeitninguna og þeir nýttu sér það,“ sagði Willum.

Sigurbergur Elíasson kom inná strax í upphafi síðari hálfleiks og hressti upp á sóknarleik Keflvíkinga. Hann lagði upp markið sem Magnús Þórir skoraði.

„Já ég var ánægður með þá skiptingu. Sigurbergur kom flottur inn í þennan leik og ég er mjög ánægður með hann í dag. Það var hinsvegar slæmt að missa Arnór útaf því hann var búinn að spila vel,“ sagði Willum Þór.

Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV, var mikið að færa til sína leikmenn í leiknum. Andri Ólafsson byrjaði frammi en var svo settur í miðvörðinn svo dæmi sé tekið.

„Ég held að hann hafi verið tilneyddur til að breyta sínu liði því hann sá að þetta var ekki að ganga. Við stjórnuðum nær öllum fyrri hálfleik og leikurinn var lengi vel í jafnvægi í stöðunni 1–1 en svo gleymdum við okkur í dekkun þarna í eitt skipti og þeir nýttu sér það," sagði Willum Þór að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×