Íslenski boltinn

Ólafur Þórðar: Vanur lélegum afmælisgjöfum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis. Mynd/HAG
„Ég fékk líka svona afmælisgjöf í fyrra - þannig að ég er vanur,“ sagði afmælisbarnið Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, eftir tap sinna manna gegn Blikum í kvöld.

Hann segir að leikurinn í kvöld, sem Blikar unnu 2-1, hafi borið þau einkenni að liðin tvö sem mættust væru að berjast fyrir litlu öðru en stoltinu.

„Það var í sjálfu sér vitað þetta yrði svona. En mér fannst við svo sem berjast ágætlega í þessum leik. En okkur skortir meiri reynslu til að klára leiki eins og þennan betur en við gerðum.“

Fylkismenn komust yfir snemma leiks með marki Ásgeirs Arnar Arnþórssonar en það dugði ekki til. „Það var vel gert hjá honum en heilt yfir vantaði gæði í okkar leik. Þetta er það sama og maður hefur verið að segja að undanförnu - það breytist ekkert á þessu sumri. En þetta er góð reynsla fyrir þessa ungu stráka sem fá nú að spila.“

Einn þeirra er Hjörtur Hermannsson sem er aðeins sextán ára gamall. „Hann stóð sig vel og ég ætlast ekki til þess að þessir strákar beri þennan leik uppi.“

Markaskorarinn Ásgeir Örn var settur í bakvörðinn í seinni hálfleik þar sem að Trausti Björn Ríkharðsson var tekinn út af. „Trausti var aðeins meiddur og átti erfitt uppdráttar í bakverðinum. Þess vegna gerðum við þessa breytingu og hún hefði getað borið betri ávöxt ef Rúrik hefði klárað færið sitt betur.“

„Ásgeir var búinn að vera góður og var það áfram. Þessi breyting olli engum straumhvörfum í leiknum.“

Blikar fóru upp fyrir Fylki í töflunni í kvöld en bæði lið eru um miðja deild með nítján stig. „Við verðum að nota þennan tíma sem eftir er af deildinni til að gefa þessum strákum mínútur og halda áfram að byggja upp liðið. Það er í raun ekkert flókið.“

„Ég er ekkert sáttur við að hafa nítján stig þó svo að margir aðrir séu ágætlega sáttir við það. Maður vill bara meira - þess vegna er maður í þessu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×