Íslenski boltinn

Bjarnólfur: Með einum sigri gæti komið trú í liðið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Bjarnólfur Lárusson þjálfari Víkings.
Bjarnólfur Lárusson þjálfari Víkings. Mynd/Daníel
Bjarnólfur Lárusson þjálfari Víkings horfir enn jákvæður fram á vegin þó lið hans hafi tapað tveimur mikilvægum stigum í kvöld með markalausu jafntefli í Grindavík.

„Leikurinn var jafn og bæði lið ætluðu að sækja þessi þrjú stig sem voru í boði og við reyndum það. Spilamennskan hjá mínum mönnum var mjög góð á köflum fannst mér. Við héldum boltanum mjög vel en við sköpuðum okkur ekki opin tækifæri en ég var mjög ánægður með að halda hreinu í þessum leik,“ sagði Bjarnólfur eftir leikinn.

„Við vorum sterkir varnarlega. Það var mikilvægt að halda hreinu og það hefði mátt gerast fyrr í sumar. Fram á við vantaði brodd í þetta,“ sagði Bjarnólfur sem vildi ekki taka svo djúpt í árina að jafntefli hafi verið vond úrslit fyrir Víking.

„Við þurfum sárlega á þremur stigum að halda í hverjum leik núna en þetta eru ekki vond úrslit. Við töpuðum ekki og það heldur smá von í þessu þó hver stig sem farin eru verði ekki aftur tekin.“

„Ég horfi á þetta leik fyrir leik. Það er langt í næstu lið en grunnurinn í liðinu er orðinn góður og með einum sigri gæti komið trú í liðið sem gæti fleytt okkur áfram. Við erum að glíma við það að ná í sigurleik sem hafa ekki verið margir í sumar,“ sagði Bjarnólfur en besti kafli Víkings kom þegar stutt var til leiksloka og liðið sýndi vilja sinn til að vinna leikinn þó það hafi ekki skapað sér færi til að sækja stigin þrjú.

„Það var mikill vilji í liðinu í kvöld, sem var betra en í síðasta leik. Við gáfum allt í þetta í lokin. Við höfum fulla trú á þessu verkefni þó það sé búið að dæma okkur niður. Við gefum okkur alla í þetta og sjáum hvert það fleytir okkur,“ sagði Bjarnólfur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×