Íslenski boltinn

Skúli Jón meiddur - missir af næstu leikjum KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Skúli Jón fagnar í leik með KR í sumar.
Skúli Jón fagnar í leik með KR í sumar. Mynd/Anton
Skúli Jón Friðgeirsson mun missa af næstu tveimur leikjum KR að minnsta kosti en hann meiddist er KR gerði 1-1 jafntefli við Stjörnuna í gær.

Skúli Jón tognaði aftan í vinstra læri í gær og missir því af toppslag KR gegn ÍBV á fimmtudaginn. Einnig telur hann fullvíst af hann missi af leiknum gegn Fram á mánudaginn.

„Það er erfitt að segja til um hversu alvarlegt þetta er. Ég hitti sjúkraþjálfara í dag en ég veit ekki hvort hann hefur einhver svör fyrir mig undir eins," sagði Skúli Jón við Vísi í dag.

„Það getur verið að ég verði orðinn góður eftir landsleikjafríið en það getur líka vel verið að ég verði lengur frá. Ég vona auðvitað að ég þurfi ekki nema 2-3 vikur til að jafna mig því það væri skelfilegt að missa af restinni af tímabilinu."

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Skúli Jón fær að glíma við meiðsli af þessum toga. „Ég hef áður lent í vandræðum með þessi meiðsli og þá báðum megin. Þetta er minn eini veikleiki," sagði hann í léttum dúr.

„Yfirleitt hef ég verið 2-3 vikur að jafna mig en í vetur þurfti ég að hvíla í 6-7 vikur sem var afar svekkjandi. Ég vona að þetta verði ekki svo alvarlegt nú."

Óskar Örn Hauksson hefur verið frá vegna meiðsla og spilar hann ekki meira með á tímabilinu. Magnús Már Lúðvíksson og Gunnar Örn Jónsson misstu báðir af leiknum í gær vegna meiðsla. Þá hefur Bjarni Guðjónsson verið tæpur en hann spilaði þó í gær.

Þeir Viktor Bjarki Arnarsson og Björn Jónsson fóru báðir af velli í gær eftir að hafa beðið um skiptingu vegna meiðsla. Rúnar Kristinsson, þjálfari KR, sagði þó við Vísi að hann vonaðist til að þeir yrðu klárir fyrir leikinn gegn ÍBV á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×