Íslenski boltinn

Geir: Ímynd íslenskrar knattspyrnu ósködduð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari og Jón Gunnlaugsson, formaður landsliðsnefndar.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, Ólafur Jóhannesson landsliðsþjálfari og Jón Gunnlaugsson, formaður landsliðsnefndar. Mynd/Stefán
Geir Þorsteinsson segir slæma stöðu Íslands á styrkleikalista Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA, ekki hafa slæm áhrif á ímynd íslenskrar knattspyrnu.

Ísland hefur aldrei verið neðar á listanum en landsliðið er nú í 124. sæti og er fyrir neðan smáríkin Færeyjar og Liechtenstein.

Geir sat fyrir svörum á blaðamannafundi KSÍ í gær og svaraði spurningum blaðamanns Vísis um stöðu Íslands á listanum og afstöðu KSÍ til hans.

„Ég hef marglýst þeirri skoðun minni að það sem okkur skiptir mestu máli eru úrslitin í leikjum okkar í undankeppnum stórmóta,“ sagði Geir sem hefur ýmislegt að athuga við hvernig listinn er uppbyggður.

„Í aðalatriðum finnst mér listinn vera stóru þjóðunum til hagsbóta. Hann þjónar þeim betur en þeim minni.“

Nágrannar Íslands á listanum eru lítt þekktar knattspyrnuþjóðir helst frá Afríku, Asíu auk hinna ýmissa eyríkja. Þjóðir sem Ísland spilar nánast aldrei við.

„Við erum ekki að spila við þessar þjóðir því eins og gefur að skilja eru þær ekki í okkar álfu. Við höfum ekki horft til þess að vera vera taktískari í því að velja okkur andstæðinga í þeim tilgangi að koma okkur ofar á listanum. Það hefur ekki verið okkar markmið.“

„En þessi listi skiptir okkur vissulega máli. Hann var notaður til að raða löndum í styrkleikaflokka þegar dregið var í riðla í undankeppni HM 2014. Þar vorum við í neðsta styrkleikaflokki í fyrsta sinn í lengri tíma.“

„Allt helst þetta því í hendur og við lítum ekki fram hjá honum. Við erum neðarlega á listanum en það er samt ekki eiginlegt markmið okkar að færa okkur upp listann - heldur mun það gerast við við náum árangri í þeim leikjum sem skipta okkur máli. Þá mun okkur vegna betur á þessum lista og það er það sem við horfum til.“

„Margir virðast halda að þessi listi þjóni sama tilgangi og heimslistinn í tennis - þar sem tennisleikarar eru að keppast að því að koma ofar listann. Að mínu viti er þetta ekki sambærilegt því við erum ekki alltaf með hugann við þennan lista.“

„Þessi listi var búinn til fyrir fjölmiðla og sem auglýsing og kynning á knattspyrnunni.“

Geir tekur undir að listinn hafi mikið að þegar kemur að því að mynda sér skoðun á stöðu knattspyrnuþjóða. En hann segir ímynd Íslands samt ekki vera í molum.

„Alls ekki. Ef við lítum til þeirra sem starfa í knattspyrnuheiminum þá bera þeir enn mikla virðingu - sem betur fer - fyrir íslenskri knattspyrnu og því starfi sem er unnið hér á landi.“

„Þeir gera sér fyllilega grein fyrir því að á Íslandi eru tækifærin mikil. Árangur U-21 landsliðsins sýndi það best og framganga liðsins hefur vakið miklu meiri athygli í knattspyrnuheiminum en nokkru sinni þessi listi.“

Noregur og Ísland drógust saman í riðil í undankeppni HM 2012. Noregur var í efsta styrkleikaflokki en Ísland þeim neðsta.

„Enda var það fyrsta sem norski landsliðsþjálfarinn sagði eftir dráttinn var að hann vildi síst af öllu fá Ísland úr neðsta styrkleikaflokki. Hann gerir sér grein fyrir því að við getum á góðum degi gert þeim erfitt fyrir,“ sagði Geir að lokum.


Tengdar fréttir

Ólafur hættir með landsliðið í haust

Ólafur Jóhannesson, landsliðsþjálfari karla í fótbolta, mun ekki halda áfram með íslenska landsliðið eftir að undankeppni EM lýkur í haust. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, tilkynnti þetta á blaðamannafundi nú áðan.

Geir: Leitin hafin að næsta þjálfara

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, vildi ekki mikið tjá sig um þjálfaramál A-landsliðs karla en tilkynnt var í dag að Ólafur Jóhannesson myndi ekki halda áfram í starfinu þegar núverandi samningur hans rennur út.

Geir: Nýr þjálfari fær nægan tíma

Geir Þorsteinsson segir að það hafi ekki verið nauðsynlegt að ráða nýjan þjálfara strax í sumar til að gefa honum meiri tíma til að aðlagast nýju starfi.

Ólafur: Kom ekki til greina að hætta

Ólafur Jóhannesson, fráfarandi landsliðsþjálfari Íslands í knattspyrnu, segir að það hafi ekki komið til greina að hætta áður en samningur hans við KSÍ rennur út.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×