Íslenski boltinn

Þórarinn Ingi: Það verður að vera barátta í þessu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þórarinn Ingi Valdimarsson, leikmaður ÍBV, var skiljanlega ánægður með jöfnunarmark Eyjamanna í viðbótartíma.

„Já, það er mjög sætt. Við erum að sýna karakterinn í liðinu að geta komið til baka. Við gerðum það í dag."

Eyjamenn virtust líklegri til þess að landa sigri eftir að Tryggvi Guðmundsson jafnaði metin snemma í síðari hálfleik.

„Já, ég er sammála því. Eftir markið fengum við kraft í okkur sjálfa og byrjuðum að spila boltanum. Mér fannst við vera mun líklegri en fengum svo markið í andlitið og þá datt þetta niður hjá okkur. Svo náum við að koma tilbaka í restina og það er glæsilegt."

Þórarinn segir Eyjamenn enn inni í titilbaráttunni eftir jafnteflið sem sé í það minnsta skárra en að tapa leiknum.

„Við lítum allavegna á þetta sem stig unnið frekar en tvö stig töpuð. Við lögðum auðvitað upp með að vinna þennan leik sem hefði sett okkur í kjörstöðu í þessari deild. Við fáum stig á erfiðum útivelli og eigum þá eftir heima. Þetta eru ágæt úrslit."

Þóarinn sagði sitt lið hafa barist vel þótt spilamennskan hafi ekki verið frábær. Þó var hann ánægður með spil Eyjamanna þegar þeir létu bolann rúlla. Baráttan í leiknum var líklega á kostnað gæðanna sem voru fjarverandi í Vesturbænum í kvöld.

„Já, það er bara baráttan. Það er bara þannig að það verður að vera barátta í þessu. Það bitnar kannski niður á spilinu í leiknum en meðan baráttan er til staðar þá erum við góðir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×