Enski boltinn

Fabregas og Nasri hvorugur í hópi Arsenal á morgun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Snillingarnir á miðjunni á góðri stundu í búningi Arsenal.
Snillingarnir á miðjunni á góðri stundu í búningi Arsenal. Nordic Photos/AFP
Arsene Wenger hefur hvorki valið Cesc Fabregas né Samir Nasri í leikmannahóp Arsenal sem mætir Newcastle á St. James' Park á morgun. Franski knattspyrnustjórinn segir það þó eiga sér eðlilegar skýringar.

„Ég reikna ekki með því að neinn fari. Það er ekkert að frétta. Ef eitthvað fréttnæmt kemur upp skal ég láta ykkur vita," sagði Wenger við enska fjölmiðla.

Fabregas er sterklega orðaður við Barcelona um þessar mundir og reiknað er með því að Nasri gangi til liðs við Manchester City.

„Cesc er ekki í verkfalli. Cesc er ekki meiddur, hann er ekki í leikformi. Ég vil ekki fara nánar út í það mál," sagði Wenger. Fabregas hefur glímt við meiðsli aftan í læri í sumar en Wenger hefur þó viðurkennt að hugur Fabregas sé hjá Barcelona. Hann þvertekur þó fyrir að Fabregas neiti að spila fyrir Arsenal.

„Nasri spilaði með franska landsliðinu, hann var veikur og hefur ekki jafnað sig. Það er eina ástæða þess að hann er ekki í hópnum," sagði Wenger um landa sinn. Nasri spilaði 68 mínútur í landsleik Frakklands og Chile í vikunni.

Hollendingurinn Robin Van Persie verður fyrirliði Arsenal á morgun í fjarveru Fabregas.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×