Enski boltinn

Wenger hrósar Joey Barton fyrir hugrekki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, var spurður út í möguleikann á því að hann fengi Joey Barton til Arsenal-liðsins eftir markalaust jafntefli við Newcastle um helgina. Barton á víst enga framtíð hjá Newcastle eftir óvinsælar yfirlýsingar sínar að undanförnu.

Wenger var alveg tilbúinn að hrósa Joey Barton þrátt fyrir að hann hafi átt mikla sök á því að Gervinho var rekinn útaf í sínum fyrsta leik í ensku úrvalsdeildinni. Gervinho var þá að reyna að fiska víti og Barton kom, tók hann hálstaki og togaði hann upp á treyjunni. Gervinho brást illa við og sló til Barton sem ýkti örugglega höggið. Gervinho fékk rautt en Barton slapp.

Það má sjá atvikið með því að smella á svipmyndir úr leiknum hér fyrir ofan.

„Ég er hrifinn af hugrekki Barton," sagði Arsene Wenger og bætti við: „Það munu allir stjórar skoða möguleikann á því að fá til sín leikmann eins og Joey Barton en ég býst þó ekki við því að við gerum neitt núna," sagði Wenger.

„Hann er góður leikmaður. Hann á stundum í vandræðum með skapið sitt en hann er samt flottur leikmaður," sagði Wenger og bætti síðan við í gríni: „Kannski er eina ráðið til að laga Barton að við tækjum hann til okkar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×