Enski boltinn

Föður John Obi Mikel var rænt - spilaði samt á móti Stoke

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Obi Mikel og André Villas-Boas.
John Obi Mikel og André Villas-Boas. Mynd/Nordic Photos/Getty
John Obi Mikel ákvað að spila með Chelsea á móti Stoke í ensku úrvalsdeildinni í gær þrátt fyrir að hafa frétt af því fyrir leikinn að glæpamenn höfðu rænt föður hans út í Nígeríu á föstudaginn.

Umboðsmannafyrirtækið sem er með John Obi Mikel á samningi hefur gefið frá sér tilkynningu um málið á twitter-síðu sinni.  „Stjórinn lét Mikel vita fyrir leikinn á móti Stoke en Mikel ákvað að leika leikinn til þess að bregðast ekki liðsfélögum sínum og fjölskyldu," segir í umræddri yfirlýsingu.

Glæpamennirnir hafa ekki enn krafist launsargjalds fyrir föður John Obi Mikel en Chelsea hefur leitast eftir lögfræðiaðstoð og mun boða til blaðamannafundar vegna málsins seinna í dag.

John Obi Mikel er 24 ára gamall og heitir fullu nafni John Michael Nchekwube Obinna. Hann hefur verið hjá Chelsea frá árinu 2006 þegar hann kom þangað frá norska félaginu Lyn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×