Innlent

Erla Bolladóttir: Mikil sorg að Sævar sé farinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Sævars Ciesielski lést af slysförum aðfaranótt miðvikudagsins. Mynd/ GVA.
Sævars Ciesielski lést af slysförum aðfaranótt miðvikudagsins. Mynd/ GVA.
Erla Bolladóttir, fyrrverandi unnusta Sævars Ciesielskis, segir það vera mikla sorg að Sævar skuli vera farinn. Hann lést þegar að hann datt í Kaupmannahöfn aðfaranótt miðvikudags og fékk höfuðhögg.

Sævar og Erla héldu kunningsskap allt fram til hins síðasta. „Það er mikil sorg að hann skuli vera farinn og kemur miklu róti á mig sem eftirlifandi aðili að þessum málum, sem engin skil voru gerð," segir Erla. Þar á hún við rannsóknir á andlátum Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar.



Sárari þörf fyrir að klára Guðmundar og Geirfinnsmálið

„Þetta mál hefur aldrei verið klárað og hvort sem okkur líkar það eða ekki, þá geng ég um í ókláruðu máli. Þetta hefur þau áhrif á mig að það vaknar hjá mér einhver sárari þörf og kraftur fyrir að fara í einhverjar aðgerðir og athuga málið betur. Ekki síst af virðingu við minningu Sævars og það mótlæti sem hann þoldi," segir Erla í samtali við Vísi.

Erla segist eiga von á því að hún muni gera það sem dugi til að einhver hreyfing verði á því máli úr þeirri stöðu sem það er í dag. „Það er ekki hægt, hvorki fyrir mig, barnið mitt og Sævars sem er orðin fullorðin manneskja í dag og afkomendur okkar né fyrir sögu þessa samfélags, eða fyrir afkomendur neinnar annarrar manneskju sem þetta land byggir að láta þetta kyrrt liggja þar sem þetta er. Það er bara ekki hægt og það er vont fyrir íslenska þjóð," segir Erla.

Átti að fá uppreisn æru

„Ef þetta mál hefði verið búð núna og hann hefði dáið núna að málinu loknu með uppreisn æru og með viðurkenningu á því hvernig komið hefði verið fram við hann þá myndi ríkja friður yfir andláti hans. Og þá væri hægt að kveðja hann með sátt í hjarta. En andlát hans rífur miklu frekar upp einhverjar dyr sem erfitt, en að því er virðist óhjákvæmilegt, er að fara í gegnum," segir Erla.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×