Innlent

Ráðherra vill ekkert segja um mögulega endurupptöku

SB skrifar
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, vill ekki svara því til hvort hann hyggist beita sér fyrir því að Guðmundar og Geirfinnsmálin verði rannsökuð að nýju. Einn sakborninganna, Sævar Cieselski, þurfti að þola harðræði og pyntingar þegar honum var haldið í einangrunarvist. Sævar lést í vikunni en hann barðist alla tíð fyrir réttlæti í málinu.

Í yfirlýsingu fangavarðar sem lögð var fram þegar krafist var endurpptöku málsins árið 1996 lýsir hann þeim aðferðum sem fangaverðir í Síðumúlafangelsinu notuðu til að ná fram játningum sakborninga í Guðmundar og Geirfinnsmálinu. Í tilviki Sævars, sem lést í Danmörku fyrr í vikunni af slysförum, segir fangavörðurinn að Sævar hafi verið sviptur svefni, þegar hann var í haldi árið 1976. Útveggur fangaklefans barinn með grjóti og rafmagnsljós látið loga allan sólahringinn.

Fangavörðurinn lýsir því einnig að Sævar hafi verið beittur vatnspyntingum. Höfuð hans fært á kaf í vatn en fangaverðirnir hafi vitað að Sævar hafi verið vatnshræddur. Sævar var hafður í fótajárnum í niðurlægingarskyni og fangavörðurinn segist hafa heyrt um að strekkt hafi verið á sakborningum, þeir járnaðir á höndum og fótum og teygt á þeim.

Fréttastofa hefur upplýsingar um þá pyntingaraðferð einnig frá öðrum fangaverði sem misbauð aðfarirnar.

Sævar Cieselski barðist ávallt fyrir því að málið yrði tekið upp að nýju. Í endurupptökubeiðninni frá 1996 segir hann Guðmundar og Geirfinnsmálin séu ekki einkamál sakborninganna heldur opinber mál sem snerti allt samfélagið. Það ætti ekki að vera feimnismál í réttarríki að viðurkenna mistök.

Í gegnum tíðina hafa margir hvatt til þess að Guðmundar og Geirfinnsmálið verði rannsakað á ný. meðal annars lýsti forsætisráðherra Íslands árið 1998, Davíð Oddsson, málinu sem dómsmorði. Gerð hafi verið mistök og  ekki aðeins eitt dómsmorð framið heldur mörg og erfitt væri fyrir þjóðina að búa við það.

Í gær skoraði Björgvin G. Sigurðsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Ögmund Jónasson innanríkisráðherra, að taka málið upp að nýju. Fréttastofa heyrði í Ögmundi nú laust fyrir hádegi. Hann sagðist ekkert vilja tjá sig um málið - hvorki um áskorun Björgvins, eða hvort hann hyggðist beita sér fyrir því að Guðmundar og Geirfinnsmálið yrði nú loks til lykta leitt.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×