Innlent

Dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.
Eggert Kári Kristjánsson var dæmdur í tveggja ára fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag fyrir að hafa nauðgað stúlku á heimili sínu í maí á síðasta ári.

Eggert, sem er tvítugur, hafði neytt fíkniefna áður en hann fór með stúlkuna á heimili sitt. Þar var fyrir var móðir Eggerts, en hún vaknaði þegar hann kom á heimilið ásamt stúlkunni sem var einnig undir miklum áhrifum fíkniefna.

Móðirin sagði í vitnisburði sínum að Eggert Kári og stúlkan hefðu vakið sig þegar þau komu á heimilið. Hún hefði sagt þeim að fara en þau ekki hlýtt því. Móðir Eggerts hefði þá farið aftur að sofa og hefðu þau verið farin þegar hún vaknaði aftur samkvæmt vitnisburði hennar í dómsal.

Hún lýsir ástandi þeirra þannig að þau hefðu verið slagandi og undir vímuáhrifum. Móðirin hefði ekki heyrt neitt til þeirra áður en hún fór að sofa, en tók fram að vel heyrðist á milli herbergja í íbúðinni.

Á meðan móðirin lá sofandi í næsta herbergi nýtti Eggert sér svefndrunga stúlkunnar og nauðgaði henni í endaþarm.

Stúlkan sagði í framburði sínum að hún hefði vaknað við aðfarir Eggerts. Hún hefði þá klórað hann í bakið og stunið af sársauka, en hann lagði þá hönd yfir munn hennar. Hún hefði ekki megnað að sporna frekar við verknaðinum af ótta við Eggert.

Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, sem var fjölskipaður, kemur fram að frásögn stúlkunnar af atburðinum hafi verið afar trúverðug. Hún gaf greinargóða lýsingu á atvikum og var framburður hennar í öllum meginatriðum í samræmi við skýrslu hennar hjá lögreglu og lýsingu hennar á verknaðinum við réttarlæknisfræðilega skoðun á Neyðarmóttöku.

Þá fær frásögn hennar stoð í læknisfræðilegum gögnum og niðurstöðu eiturefnarannsóknar. Á hinn bóginn var framburður Eggerts fyrir dóminum óljós og misvísandi, en jafnframt kom fram hjá Eggerti að hann mundi atvik ekki vel.

Eggert var því dæmdur í tveggja ára óskilorðsbundið fangelsi. Þá er honum einnig gert að greiða stúlkunni eina milljón króna í miskabætur.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×