Innlent

Geir segir málsmeðferðina vera hneisu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
„Ég er auðvitað afskaplega ánægður með það að málið skuli vera komið af stað. Ég er búinn að bíða eftir því síðan í október," sagði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, við blaðamenn eftir að þingfestingu í máli Alþingis gegn honum lauk í dag.

Við þingfestinguna krafðist Andri Árnason, verjandi Geirs, þess að dómarar sem kjörnir eru til setu í landsdómi af Alþingi og varamenn þeirra víki sæti. Þetta gerði hann vegna breytinga á lögum um landsdóm eftir að ákæran gegn Geir var samþykkt á Alþingi. Samkvæmt lögunum sitja dómarar áfram þó að kjörtímabil þeirra sé runnið út.

Geir og verjandi hans telja að með þessu fyrirkomulagi sé Alþingi, sem sé ákærandinn í málinu, að velja dómara til að dæma í málinu. Slíkt brjóti gegn reglum um réttláta málsmeðferð. Saksóknari hafnar túlkun Geirs. Ekki hefur verið úrskurðað um kröfuna.

Þá vakti Geir máls á því við blaðamenn, eftir þingfestinguna, að saksóknaranefnd Alþingis hefði ekki látið neina rannsókn fara fram áður en ákveðið var að ákæra hann. „Slíkt hlýtur að teljast alger hneisa í réttarríki," sagði Geir.

Við þingfestingu málsins las Geir upp yfirlýsingu sem lesa má með því að smella á hlekkinn hér að neðan.




Tengdar fréttir

Aldrei hefði átt að ákæra Geir

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir að málaferlin gegn Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi tekið allt of langan tíma. Hún hefði viljað að aldrei hefði komið til þess að Geir yrði ákærður.

Geir: Ég er saklaus

"Virðulegu dómarar háttvirtur saksóknari, mín afstaða til sakarefnis er skýr. Ég lýsi mig saklausan af ákæruefnunum,“ sagði Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, þegar Ingibjörg Benediktsdóttir, forseti landsdóms, bauð honum að lýsa yfir afstöðu til sakarefnisins fyrir Landsdómi í dag. Ákæra gegn Geir var þingfest í landsdómi, sem staðsettur er í Þjóðmenningarhúsinu, klukkan hálf tvö í dag.

Ákæran á hendur Geir þingfest eftir hádegi

Ákæra Sigríðar Friðjónsdóttur, saksóknara Alþingis, á hendur Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, verður þingfest í landsdómi eftir hádegi í dag. Á blaðamannafundi í gær gagnrýndi Geir málsmeðferðina harðlega og boðaði frávísunarkröfu vegna galla á henni. Ítrekað hefði verið brotið á sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×