Innlent

Vopnfirðingar fá malbikið í sumar

Tímamót verða í samgöngumálum Vopnfirðinga í sumar þegar héraðið tengist öðrum landshlutum með bundnu slitlagi í fyrsta sinn. Lagning nýja vegarins í Vopnafjörð er langt komin en hún er stærsta verkefnið sem unnið er að í vegagerð hérlendis um þessar mundir.

Vinnuvélarnar standa reyndar hreyfingarlausar þessa dagana en vestfirski verktakinn KNH gerði hlé á vinnunni yfir háveturinn. Tækin verða ræst á ný í apríl, lokaáfanginn kláraður, og Vopnfirðingar fá langþráðar samgöngubætur.

Þórunn Egilsdóttir, oddviti Vopnafjarðarhrepps, segir löngu tímabært að Vopnfirðingar komist í nútímavegasamband og því verði fagnað. Dagsetningin liggur ekki fyrir og framkvæmdastjóri KNH, Sigurður Óskarsson, vill ekki lofa meiru en að vegurinn verði tilbúinn fyrir 1. september. Neðra slitlagið kannski komið á um miðjan ágúst.

Hann stefnir hins vegar að því að leggja einnig svokallaða millidalaleið í sumar, sem verður tenging af nýju leiðinni um Vesturárdal, yfir í Hofsárdal, þar sem þjóðleiðin liggur núna. Þótt verklokum verði vafalaust fagnað vel á Vopnafirði telja menn þar þetta eins fyrri hálfleik.

Oddvitinn, Þórunn Egilsdóttir, segir að stóra verkefnið sé að grafa göng undir Hellisheiði eystri. Ef Vopnafjörður eigi að vera hluti af Austfjörðum verði göngin að koma.

„Það er ekki bara fyrir okkur. Það er líka fyrir hina að komast til okkar," sagði Þórunn.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×