Innlent

Siv ætlar að segja já við Icesave samningnum

Boði Logason skrifar
Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins.
Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins.
„Ég hef gert það upp við mig að ég mun greiða atkvæði með samningnum í þjóðaratkvæðagreiðslunni," segir Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins. Hún, ásamt Guðmundi Steingrímssyni, sat hjá í atkvæðagreiðslu í þinginu á dögunum þegar samningurinn var samþykktur en sjö þingmenn Framsóknarflokksins greiddu atkvæði á móti samningnum.

„Ég vildi ekki greiða atkvæði á móti samningum því ég taldi enga aðra lausn betri í stöðunni og ég greiddi ekki atkvæði með samningnum því ég taldi að ég ætti ekki að bera ábyrgð á honum sem slíkum. En ég studdi þjóðaratkvæðagreiðslumálið og úr því að málið fer í þjóðaratkvæðagreiðslu, þá mun ég mæta á kjörstað og segja já," segir hún.

Meiri líkur en minni að málið tapist fyrir dómstólum

Hún segir þrjá kosti vera í stöðunni. „Að segja já við samningnum sem nú liggur á borðinu, reyna ná betri samningi eða fara með málið fyrir dómstóla. Mér finnst mjög ólíklegt að það verði hægt að ná betri samningi og bendi á að þessi samningur er tíu sinnum betri en fyrsti samningurinn. Þá tel ég mun meiri líkur en minni að þetta mál tapist fyrir dómstólum," segir Siv og tekur fram að samþykkja samninginn í þjóðaratkvæðagreiðslu sé besti kosturinn í stöðunni.

Heildarhagsmunir þjóðarinnar að klára þetta mál

„Ég vil að þjóðin fái að kjósa í þjóðaratkvæðagreiðslu um lyktir málsins vegna aðdraganda þess. Ég tel að þeir kostir sem eru núna í stöðunni er að segja já eða nei, eða mæta ekki á kjörstað. Ég vil mæta á kjörstað og mun þá segja já," segir Siv. Hún segist vera sammála þeim sem hafa sagt að það séu yfirgnæfandi líkur á að EFTA dómstóllinn muni dæma að Íslendingar eigi að greiða innistæðutrygginguna. „Þar er látið í ljós að dómstólar komist að sömu niðurstöðu og ESA. Að mínu mati eru það því heildarhagsmunir þjóðarinnar að klára þetta mál."

Skiptar skoðanir í flokknum

Hún segir að skiptar skoðanir séu í flokknum um samninginn en hún er eini þingmaðurinn í Framsóknarflokknum sem á þessu stigi hefur sagst ætla að greiða með samningnum. „Menn verða bara að leggja kalt mat á stöðuna. Þetta er mitt mat, að það er alltof áhættusamt að fara með málið fyrir dómstóla og mjög ólíklegt að ná betri samningi. Þá tel ég að við eigum að klára málið með þessum samningi og fara að einbeita okkur að því að byggja hér upp atvinnulífið," segir Siv að lokum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.