Innlent

Ekki brugðist við mikilli hættu

bankarnir Lán til tengdra aðila veiktu bankana og gerðu þá brothætta.
bankarnir Lán til tengdra aðila veiktu bankana og gerðu þá brothætta. samsett mynd/kristinn
Ekki var brugðist við ábendingum um að áhætta vegna lausafjárskorts og fjármögnun bankanna væri orðin of mikil vorið 2008. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis vegna bankahrunsins.

Bent er á að haustið 2008 hafi Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn, allir verið komnir vel á veg með að innleiða stoð 2 í Basel-reglunum. Svonefnt CAMELS-mat allra bankanna vorið 2008 hafi hins vegar gefið til kynna að lausafjáráhætta og fjármögnunaráhætta væru helstu veikleikar þeirra.

Í skýrslunni segir að almennt komi fram að áhætta af hlutabréfum, beint í eigu bankanna eða óbeint sem veð fyrir útlánum, væri mikil. Glitnir og Landsbankinn eru nefndir sérstaklega í tengslum við of mikla áhættu tengda eigendum bankanna.

„Rannsóknarnefnd Alþingis telur að hér hafi CAMELS-matið réttilega leitt í ljós tvo verulega áhættuþætti í rekstri bankanna. Of mikil útlán voru veitt vensluðum aðilum og markaðsáhætta var allt of mikil hvort sem það var beint eða í gegnum útlán bankanna,“ segir í skýrslunni og bent á að bregðast hefði þurft við með því að draga verulega úr þessari áhættu.

Frá því um vorið hafi hins vegar aukist bæði lán með veðum í hlutabréfum og einnig lán til venslaðra aðila. - jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×