Íslenski boltinn

Haraldur Freyr: Ekki viss um að Kongsvinger sé réttur kostur

Hjalti Þór Hreinsson skrifar

Haraldur Freyr Guðmundsson, fyrirliði Keflavíkur, er ekki viss um að það yrði rétt skref fyrir sig að fara frá Keflavík til Kongsvinger í Noregi. Norska úrvalsdeildarfélagið er í harðri fallbaráttu og er í næst neðsta sæti eftir 17 umferðir af 30.

"Ég hef heyrt lauslega í Kongsvinger. Þeir lögðu inn tilboð og Keflavík gerði þeim gagntilboð. Þeir hafa ekki svarað því skilst mé," sagði Haraldur Freyr við Vísi.

"Þetta er undir þeim komið hvort þeir selji mig eða ekki en ef félögin ná saman skoða ég málið betur. Ég er ekki endilega viss um að þetta sé rétt skref eða ekki þegar ég lít á töfluna," segir Haraldur sem spilaði í fjögur ár með Álasundi í Noregi.

"Mér finnst ekki ólíklegt að þeir fari niður. Þeir eru í samkeppni að mér sýnist við Hønefoss sem mér sýnist vera með sterkari mannskap. Sú hugsun, að fara og spila í 1. deildinni er ekki mjög heillandi," segir Haraldur en bætir við að úrvalsdeildin heilli þó enda mun sterkari en íslenska úrvalsdeildin.

"Ég myndi frekar vilja vera í efstu deild á Íslandi en í 1. deildinni í Noregi. Þetta yrði fínt peningalega séð en það er spurning hvort maður eigi ekki að halda hausnum köldum bara og klára tímabilið hérna heima," sagði Haraldur.

Hann verður 29 ára gamall í desember. "Ég er ekkert að verða yngri en ég er ekkert örvæntingafullur um að komast út aftur þó að það væri gaman," sagði Haraldur Freyr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×