Lífið

Hjálmaklíkan með þrjár vinsælustu plöturnar

Hljómsveitin Baggalútur gefur í á Tónlistanum þessa vikuna með nýjustu plötu sína, Næstu jól, og nær toppsætinu af Memfismafíunni og Diskóeyjunni. Í þriðja sæti eru síðan Hjálmar með Keflavík Kingston. Menn eru án efa kátir í herbúðum þessarra þriggja sveita, enda eru þær að miklu leyti skipaðar sömu mönnum.

Það er greinilegt að jólavertíðin er hafin í plötubransanum en þessa vikuna raða nýjar plötur sér víða á topp 30 yfir mest seldu plötur á Íslandi. Hæst þeirra er Velkomin til KópaCabana með Blaz Roca í fjórða sæti.

Á Lagalistanum sést síðan að sami hópur á ennþá vinsælasta lag landsins, Það geta ekki allir verið gordjöss af Diskóeyjunni. Þar bankar Erpur síðan upp á með lagið Allir eru að fá sér.

Fréttablaðið og Vísir birta nú Laga- og Tónlistana sem mæla vinsælustu lög og plötur landsins. Tíu efstu sætin á hvorum lista birtast í Fréttablaðinu á fimmtudögum og ítarlegri útgáfa, 30 efstu sætin, birtist hér á Vísi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.