Innlent

Tölur um styrki til flokka stemma ekki

Tölur sem rannsóknarnefnd Alþingis birtir í skýrslu sinni, um styrki frá Kaupþingi og Landsbanka til stjórnmálaflokka árin 2004 til og með 2008, stemma ekki við þær tölur sem stjórnmálaflokkarnir sjálfir létu Ríkisendurskoðun í té.

Tölurnar stemma sjaldnast á hverju ári fyrir sig og í engu tilfelli, fyrir utan tölur Íslandshreyfingarinnar, stemmir heildartalan yfir framlög.

Til dæmis sögðu bankarnir nefndinni að Samfylkingin hefði fengið tólf milljónir 2005 en Samfylkingin sagði Ríkisendurskoðun að hún hefði fengið 34 milljónir frá bönkunum það ár. Þetta jafnar sig svo út og rúmlega það árið 2006.

Í heildina munar milljón á framlögum til Framsóknar, tæpum fjórum á tölum Sjálfstæðisflokks og um fimm milljónum á tölum Samfylkingar.

Lárus Ögmundsson hjá Ríkisendurskoðun sendi á mánudag bréf til flokkanna og bað um að þessi mismunur yrði skýrður út.

„Auðvitað þarf bókhald greiðanda ekki að stemma við bókhald þiggjanda," segir hann. Stjórnmálaflokkur kunni til dæmis að hafa fengið loforð um framlag eitt árið og bókað framlagið þá, en bankinn bókfært upphæðina þegar hún var greidd út ári síðar. Stjórnmálaflokkarnir höfðu ekki svarað Ríkisendurskoðun í gær. klemens@frettabladid.is

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×