Lífið

Á Charlie Sheen afturkvæmt til Hollywood?

Charlie Sheen á kunnuglegum slóðum í lífinu. Hann hefur oftar en ekki þurft að fylgja þeim bláklæddu.nordicphotos/getty
Charlie Sheen á kunnuglegum slóðum í lífinu. Hann hefur oftar en ekki þurft að fylgja þeim bláklæddu.nordicphotos/getty

Líf leikarans Charlie Sheen hefur verið skrautlegt – svo vægt sé tekið til orða. Hann er reglulega kærður fyrir ofbeldisbrot, hefur farið í fjölmargar meðferðir og er nú sakaður um að reyna að kyrkja klámmyndaleikkonu.

Eins og fjölmiðlar víða um heim hafa greint frá er leikarinn Charlie Sheen enn og aftur búinn að koma sér í vandræði. Í síðasta mánuði var lögregla kölluð í hótelherbergi þar sem hann fannst nakinn og í annarlegu ástandi. Ekki nóg með það, heldur var klámmyndaleikkonan Capri Anderson læst inni á baðherbergi. Hún fullyrti að Sheen hefði beitt sig ofbeldi og hún óttast um líf sitt.

Þetta rímar mjög vel við forsögu Sheen sem hefur oft verið dæmdur fyrir ofbeldisbrot og eiturlyfjanotkun. Capri Anderson hefur kært Sheen fyrir meint brot, en nú hefur hann kært hana á móti fyrir að ljúga til um hvað gerðist þetta kvöld í sjónvarpsþættinum Good Morning America. Hann kærir hana einnig fyrir fjárkúgun, en hún á að hafa beðið um eina milljón dollara fyrir að tjá sig ekki um málið.

Fréttamiðillinn TMZ birti í vikunni smáskilaboð sem Sheen og Anderson skiptust á stuttu eftir þetta örlagaríka kvöld. Talið er að þau hjálpi málstað Sheen, en samkvæmt þeim virðist ekki hafa slest alvarlega upp á „vinskap“ þeirra á hótelherberginu.

Í smáskilaboðunum sakar Anderson Sheen um að eyðileggja nýja handtösku af gerðinni Prada. Hann biðst afsökunar og býðst til að greiða henni 20.000 dollara fyrir nýja tösku – ekki erfitt fyrir mann sem þénar um 1,8 milljónir dollara fyrir hvern þátt af Two and a Half Men, sem njóta mikilla vinsælda. Nokkur skilaboð gengu þeirra á milli og þau sættust á að hann sendi henni peningana á næstunni.

Óvíst er hvað gerist næst í málinu. Charlie Sheen virðist hins vegar eiga níu líf í bransanum og það er sama hvað bjátar á, hann virðist ávallt eiga afturkvæmt í sjónvarp eða kvikmyndir. Capri Anderson nýtir sér málið til hins ýtrasta og hefur nú lækkað áskriftarverð klámsíðu sinnar og gert öllum ljóst að hún sé „stúlkan úr hótelherberginu“ sem allir eru að tala um.

atlifannar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.