Innlent

Vísaforstjóri kannast ekki við fullyrðingar Davíðs

SB skrifar
Höskuldur H. Ólafsson forstjóri Valitors. Segir aðgerðir Seðlabankans hafa reynst vel.
Höskuldur H. Ólafsson forstjóri Valitors. Segir aðgerðir Seðlabankans hafa reynst vel.

Höskuldur H. Ólafsson, forstjóri Valitor á Íslandi, kannast ekki við þá fullyrðingu Davíðs Oddssonar að Seðlabankinn hafi farið á svig við lagaheimildir þegar Seðlabankinn bjargaði Vísakortaviðskiptum landsmanna skömmu eftir hrun.

"Það skildi enginn það, það hrundu allir bankarnir en það gátu allir borgað með vísakortunum sínum, það var út af því að Seðlabankinn gaf út tilkynningu, sem hann hafði enga heimild til, um það að hann mundi ábyrgjast öll vísakort manna," er haft eftir Davíð Oddssyni í Rannsóknarskýrslunni.

Þekki ekki þessa rökfærslu," segir Höskuldur. "Það sem á sér stað að Seðlabankinn tekur yfir ábyrgðir sem áður hvíldu á hinum föllnu bönkum. Með þessu náðist að tryggja hnökralausa virkni greiðslumiðlunar með kortum."

Líkt og Vísir greindi frá í gær segir Davíð ennfremur í skýrslunni að sem betur fer hafi almenningur ekki haft vitneskju um þá staðreynd að Seðlabankinn fór á svig við lög.

"Eins gott að menn vissu það ekki, því þá hefðu þeir kannski farið að taka út það sem þeir áttu ekki fyrir," sagði Davíð.

Höskuldur segir náið samstarf hafa verið við Seðlabankan á þessum tíma en hvað varðar fullyrðingu Davíðs segir Höskuldur: "Hvað varðar heimildir Seðlabanka þá veit ég ekki hvað við er átt."

Höskuldur segir að endingu að með aðgerðum Seðlabankans hafi verið komið í veg fyrir mikil vandræði. "Kortanotkun hefði líklega truflast sem hefði fyrst komið illa við þúsundir íslenskra korthafa sem staddir voru erlendis. Aðrar afleiðingar er vandasamt að ráða í en með samstilltum aðgerðum hélst full virkni eins og að var stefnt."






Tengdar fréttir

Davíð: Bjargaði vísakortum landsmanna

Davíð Oddsson segir í rannsóknarskýrslunni að Seðlabankinn hafi ábyrgst öll vísakort landsmanna - án þess að fyrir því væri nokkur lagaheimild. Sem betur fer hafi fólk ekki áttað sig því að bankinn væri að fara á svig við lög.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×