Lífið

Get vonandi boðið konunni upp í dans hér eftir

Guðmundur segir íþróttamenn almennt taktlausa en Hjörvar þann versta, taktlausasta mann landsins.
Guðmundur segir íþróttamenn almennt taktlausa en Hjörvar þann versta, taktlausasta mann landsins.

Átta íþróttamenn ætla að læra að dansa undir styrkri handleiðslu Peters Anderson fyrir dag Rauða nefsins sem haldinn verður hátíðlegur 3. desember. Íþróttamenn eru taktlausir, segir einn þátttakenda.

Átta íþróttamenn ætla að hittast í Listdanskólanum við Engjateig á laugardag og sunnudag og æfa réttu sporin fyrir dansatriði sem þeir setja upp á degi Rauða nefsins 3. desember.

Peter Anderson danskennari mun stýra hópnum en í honum eru menn sem eru eflaust þekktari fyrir afrek sín á íþróttavellinum en dansgólfinu. Hugmyndin er sú að þeir stígi villtan dans í beinni útsendingu á degi Rauða nefsins þar sem uppbyggingin verður svipuð og í amerísku raunveruleikasjónvarpsþáttunum So You Think You Can Dance.

Einn þátttakenda er Guðmundur Benediktsson, íþróttaþulur hjá Stöð 2 Sport, sem er reyndar búinn að leggja skóna á hilluna. Þrátt fyrir að Guðmundur hafi verið þekktur fyrir útsjónarsemi og markaskorun þá segist hann sjálfur vera algjörlega reynslulaus þegar kemur að dansi.

„Ég hef ekki einu sinni náð að dansa við konuna mína, ég veit þess vegna ekki hvernig þeim tókst að plata mig út í þetta, það hlýtur að vera þetta góða málefni," segir Guðmundur í samtali við Fréttablaðið. Hann telur íþróttamenn almennt vera taktlausa en nú ætli þeir að vinna í þeim hvimleiða kvilla. „Vonandi tekst þessum Peter að finna taktinn með okkur."

Guðmundi til halds og trausts verða kappar á borð við Sigurð Eggertsson handknattleiksmann, Gunnar Nelson bardagakappa, Jakob Jóhann sundmann, Hauk Harðarsson og Hjört Júlíus Hjartarson af RÚV, Ólaf Kristjánsson, þjálfara Breiðabliks, og svo Hjörvar Hafliðason, samstarfsmann Guðmundar úr Sunnudagsmessunni á Stöð Sport 2.

Guðmundur er handviss um að fyrrum markvörðurinn Hjörvar sé hreinlega taktlausasti maður landsins og hann þurfi jafnvel á aukatímum að halda. „Ég er annars bjartsýnn fyrir mína hönd, þetta gæti verið upphafið að einhverju stórkostlegu í mínu lífi og hugsanlega kemur maður konunni á óvart á næstu árshátíð og býður henni upp í dans."

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.