Innlent

Geir og Davíð oftast nefndir

Flestir helstu fjölmiðlar Vesturlanda hafa sagt frá skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um bankahrunið. „Íslenskir ráðamenn sekir um vanrækslu" er algengasta fyrirsögnin, og oftast minnst í því samhengi á Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, og Davíð Oddsson, fyrrverandi seðlabankastjóra.

Í norska dagblaðinu Aften­posten er mikið gert úr því að íslenski seðlabankinn hafi hreinlega gleymt að framlengja samning um 500 milljón dala lán frá Alþjóðagreiðslubankanum í Sviss, og þetta sagt ein alvarlegustu mistökin sem gerð voru.

Breskir fjölmiðlar beina athyglinni að Icesave-málinu. Breska ríkisútvarpið BBC segir niðurstöðu skýrslunnar, hvað þetta varðar, þá að „íslensk stjórnvöld hefðu átt að tryggja að breskir sparifjáreigendur á Icesave væru tryggðir í Bretlandi".

Þá hefur grein Eiríks Bergmanns Einarssonar um skýrsluna á vef breska dagblaðsins Guardian vakið nokkra athygli.

Þýska dagblaðið Die Welt skýrir eins frá vinnu nefndarinnar og segir að ummæli dagsins hafi komið í athugasemd lesanda við fréttina á Netinu: „Verið nú svo vænir, elsku Íslendingar, að gera svona líka hjá okkur."- gb

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×