Innlent

Umboðsmenn yfirgefa Mel Gibson

Stórleikarinn Mel Gibson í kröppum dansi.
Stórleikarinn Mel Gibson í kröppum dansi.

Enn sígur á ógæfuhliðina hjá stórleikaranum Mel Gibson. Upptaka af samtali Mel Gibson við fyrrverandi kærustu sína, Oksana Grigorieva, láku á netið í vikunni en í samtalinu kallar hann stúlkuna öllum illum nöfnum. Mel Gibson er sökkvandi skip og nú hefur umboðsskrifstofan hans látið hann fara.

Oksana Grigorieva hefur haldið því fram að Mel Gibson hefur beitt hana ofbeldi, lamið úr henni tönn og gefið henni glóðurauga. Í samtalinu þeirra sem lak á netið segir Mel Gibson hana meðal annars eiga skilið að vera misnotaða af hópi blökkumanna, hann vilji grafa hana í rósargarði, og hann elski hana ekki lengur.

Mel Gibson hefur ekki viljað svara fyrir þau orð sem hann lét falla. Í gær reið enn eitt áfallið yfir þennan stórleikara sem eitt sinn heillaði heimsbyggðina með leik í myndum eins og Mad Max og Braveheart. Umboðsmaður hans, William Morris Endeavor, lýsti því yfir að Mel Gibson væri ekki lengur skjólstæðingur hans. Samkvæmt heimildum Hollywood Report hefur umboðsskriftofan sem sér um málefni Mel reynt að losa sig við hann síðan Mel Gibson lét óviðurkvæmileg anti-semísk ummæli falla fyrr á árinu.

Aðeins er um ár síðan Mel Gibson gerði samband sitt við Oksana opinbert eftir að hafa sótt um skilnað við eiginkonu sína til þrjátíu ára. Mel og Oksana eignuðust barn í október en hættu saman í apríl. Samskipti þeirra skánuðu ekki við skilnaðinn og í síðasta mánuði sótti Oksana um nálgunarbann. Mel Gibson brást við með því að sækja um fullt forræði yfir dótturinni Lucia.

Lögreglan í Los Angeles rannsakar nú ásakanir á hendur Mel Gibson um heimilisofbeldi og ef leikarinn verður fundinn sekur gæti hann þurft að yfirgefa Hollywood villuna fyrir kaldan fangaklefa, en viðurlög við heimilisofbeldi eru þung í Los Angeles.

Ekki sér fyrir endann á deilum Mel Gibson og Oksana því nýjustu fréttir herma að Mel Gibson hafi kært Oksana fyrir að leka samtalinu á netið og eyðileggja því möguleika hans á sanngjörnum réttarhöldum. Oksana hefur neitað því að hún sé ábyrg fyrir lekanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×