Enski boltinn

Leboeuf og Desailly hafa ekki trú á Chelsea

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frank Leboeuf.
Frank Leboeuf. Nordic Photos / AFP
Frakkarnir Frank Leboeuf og Marcel Desailly hafa ekki trú á því að Chelsea muni verja titil sinn í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð.

Chelsea hefur gengið illa að undanförnu og ekki unnið í síðustu fimm deildarleikjum sínum. Liðið er fallið af toppnum og er nú í fjórða sæti deildarinnar. Chelsea hefur ekki þurft að bíða svo lengi eftir sigri í áratug.

„Ég elska félagið og það er erfitt fyrir mig að gagnrýna það," sagði Leboeuf. „En ég sagði í upphafi tímabilsins að Chelsea myndi ekki vinna titilinn."

„Þegar ég félagið komst svo á toppinn á haust velti ég því fyrir mér hvort ég vissi nokkuð um fótbolta lengur. En nú hefur sannleikurinn komið í ljós og hvernig félagið og þessir leikmenn eru í raun og veru."

„Það þarf að gera eitthvað í lok tímabilsins - selja og kaupa leikmenn. Þeir stóðu sig ekki illa gegn Tottenham en fyrir 1-2 árum síðan hefði Chelsea unnið þennan leik. Mér finnst að Chelsea sé ekki Chelsea lengur og finnst mér það leiðinlegt. Liðið er komið á endastöð."

Leboeuf var í fimm ár hjá Chelsea og Desailly í sex. Sá síðarnefndi segir að liðið verði að vinna Manchester United á sunnudaginn til að bjarga tímabilinu.

„Chelsea mun áfram vera við toppinn en ég er ekki viss um að þeim takist að vinna titilinn. Leikurinn gegn United er frábært tækifæri fyrir leikmenn sem vilja sanna sig."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×