Innlent

Málskostnaður Jóns Ásgeirs þegar nærri heildareignum

Jón Ásgeir þarf að greiða minnst 140 milljónir í málskostnað vegna deilunnar um kyrrsetninguna í London, þar af 28 milljónir fyrir lok næstu viku. Ekki liggur fyrir hvernig hann á að standa straum af málstkostnaðinum þegar eignir hans eru frystar.
Jón Ásgeir þarf að greiða minnst 140 milljónir í málskostnað vegna deilunnar um kyrrsetninguna í London, þar af 28 milljónir fyrir lok næstu viku. Ekki liggur fyrir hvernig hann á að standa straum af málstkostnaðinum þegar eignir hans eru frystar.
Jón Ásgeir Jóhannesson gæti þurft að greiða alls um 180 milljónir íslenskra króna fyrir það eitt að verjast kyrrsetningu eigna sinna í London. Það eru 75 prósent af uppgefnum heildareignum hans, sem hann má þó ekki hreyfa við.

Dómari í London hafnaði á föstudag kröfu Jóns Ásgeirs um að alheimskyrrsetningu á eignum hans yrði aflétt. Þegar dómarinn kvað upp úrskurð sinn tilkynnti hann jafnframt að Jón Ásgeir skyldi bera eigin 600 þúsund punda málskostnað, ríflega 110 milljónir króna, sem og málskostnað slitastjórnar Glitnis. Málskostnaður slitastjórnarinnar nam 350 þúsund pundum og var Jóni Ásgeiri gert að greiða 150 þúsund pund af því, ríflega 28 milljónir, eigi síðar en 30. júlí. Dómarinn á svo eftir að taka afstöðu til þess hvort 200 þúsund punda eftirstöðvarnar falla einnig á Jón Ásgeir.

Samkvæmt eignalistanum sem Jón Ásgeir skilaði inn til dómsins í London eru allar eignir hans virði tæplega 240 milljóna íslenskra króna, og þar af eru innstæður á bankareikningum einungis um átta og hálf milljón. Þar að auki hafa eignirnar verið frystar þannig að hann má ekki hreyfa við þeim, ekki heldur til að greiða málskostnaðinn.

Málaferli eru einnig hafin í New York vegna stefnu slitastjórnarinnar á hendur sjömenningunum sem sakaðir eru um að hafa tæmt bankann innan frá. Ekki liggur fyrir yfirlit yfir málskostnað þar en að sögn Páls Eiríkssonar, sem situr í slitastjórninni, má gera ráð fyrir að hann verði töluvert hærri en sá í London þegar yfir lýkur, að því gefnu að Jón Ásgeir og meðstefndu grípi til ýtrustu varna.

Páll segir slitastjórnina ekki hafa nein tæki eða úrræði til að kanna hvernig Jón Ásgeir muni standa skil á málskostnaðinum. „Það er bara hans að leysa úr því, " segir Páll.

Sem áður hafa slitastjórn og dómarinn breski efasemdir um að eignalistinn sem Jón Ásgeir skilaði sé fullnægjandi. Ef sannanir fást fyrir því að sá grunur sé á rökum reistur á Jón Ásgeir yfir höfði sér allt að þriggja ára fangelsi fyrir að ljúga til um eigur sínar. Slitastjórnin hefur unnið hörðum höndum að því upp á síðkastið að reyna að þefa uppi meinta falda sjóði. Slitastjórnin stendur nú í deilu við Jón Ásgeir og konu hans í Bandaríkjunum um aðgang að gögnum frá hússtjórn glæsihýsis þar sem þau eiga íbúðir og Royal Bank of Canada sem slitastjórnin telur að gæti hugsanlega varpað ljósi á flókna fjármagnsflutninga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×