Innlent

Segir skattahækkanir vera neyðarúrræði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir nær að auka atvinnu en að hækka skatta. Mynd/ GVA.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, segir nær að auka atvinnu en að hækka skatta. Mynd/ GVA.
Bjarni Benediktsson segir að þær skattatillögur sem kynntar voru í gær og voru unnar af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum gangi þvert gegn því sem ríkisstjórnin hafi viljað gera.

„Þegar að hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru skoðaðar að þá eru nokkur atriði áberandi sem að skipta miklu en hafa kannski ekki fengið nægjanlega athygli," segir Bjarni. Í fyrsta lagi telji Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn það óskynsamlegt að nota skattkerfið til tekjujöfnunar. Þetta sé hins vegar yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar. Í öðru lagi gangi allar hugmyndir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins út á það að einfalda skattkerfið. Ríkisstjórnin hafi hins vegar verið að flækja það. „Í þriðja lagi segir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að ekki eigi að hækka skatta fyrr en öll önnur úrræði hafa verið tæmd. En þetta er alltaf fyrsta úrræðið sem ríkisstjórnin grípur til," segir Bjarni. Hann segir því að skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sé algjör falleinkunn fyrir stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum.

Bjarni segir þó alvarlegast að það þurfi ekki nýja skatta heldur að skapa ný störf í einkageiranum til þess að taka við þeim störfum sem muni tapast úr opinbera geiranum. „Við verðum að svara spurningunni um það hvernig við ætlum að vaxa - hvernig við ætlum að skapa hagvöxt. Og ég veit að það atriði brennur mjög á Alþjóðagjaldeyrissjóðnum," segir Bjarni. Hann segist telja að það væri nær af ríkisstjórninni að deila með þjóðinni áhyggjum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins af því hvernig Íslendingar ætli að ná hagvexti frekar en að kynna neyðarúrræði þeirra í skattamálum sem gangi öll í öfuga átt við það sem ríkisstjórnin vilji gera.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×