Innlent

Einar Skúlason: „Ætla að einbeita mér að því að vera ástfanginn“

Einar Skúlason fann ástina í framboði.
Einar Skúlason fann ástina í framboði.

„Þetta er náttúrulega áfall fyrir mig persónulega og flokkinn," segir Einar Skúlason, oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, en Framsóknarflokkurinn náði ekki endurkjöri í borgarstjórn í gær. Framboðið skilaði honum hinsvegar ástinni.

Þetta er í fyrsta sinn í áratugi sem flokkurinn fær ekki mann kjörinn inn í borgarstjórn Reykjavíkur. Framsóknarflokknum gekk einnig illa á höfuðborgarsvæðinu en þar náði flokkurinn aðeins tveimur mönnum inn í sveitarstjórnir. Annar maðurinn er í Kópavogi, hinn á Álftanesi.

„Það eru líka vonbrigði að sjá hvað okkur gekk illa á höfuðborgarsvæðinu," segir Einar. Framsóknarflokkurinn mældist ágætlega í könnunum áður en Best flokkurinn fór á flug. Eftir það mældist Einar aldrei inni í borgarstjórn.

Sjálfur taldi Einar að flokkurinn fengi fleiri atkvæði fyrir nýliðunina sem hefur orðið innan raða flokksins. Svo virðist sem það hafi engu skipt.

„Ég hitti oft fólk sem sagði mér að ég væri svo sem fínn en þeir gætu ekki kosið Framsóknarflokkinn," segir Einar og bætir við: „Fólk á erfitt með að fyrirgefa flokknum."

Spurður hvað taki við núna segir Einar: „Ég ætla að einbeita mér að því að vera ástfanginn."

Að sögn Einars kynntist hann konu fyrir nokkrum vikum síðan. Þau hafa ekki fengið mikinn tíma saman en nú virðist það ætla að breytast miðað við úrslit kosninganna.

Aðspurður hver sú heppna sé vill Einar sem minnst um það segja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×