Innlent

Útikennslustofa gjörónýt eftir bruna

Mikil skemmdarverk hafa verið unnin á útikennslustofu í grenndarskógi Selásskóla við Rauðavatn.

„Þegar ég kom þarna að var búið að rústa þessu og kveikja í," segir Örn Árnason leikari, en hann gekk fram á skemmdarverkin á sunnudag.

„Þetta er ákaflega sorglegt því þarna er margra ára vinna kennara og nemenda farin í súginn. Það er búið að taka mörg ár hjá skólanum að koma upp aðstöðu þarna."

Í útikennslustofunni hafa nemendur skólans fengið lifandi náttúrufræðikennslu. Nú er hún nánast ónýt. Að auki eru nokkur tré við skólastofuna brunnin og mun líklega þurfa að saga þau niður. „Ég verð bara sorgmæddur þegar ég horfi upp á svona eyðileggingu."

„Við höfum ekki fengið að eiga þetta mikið í friði, en skemmdarverkin hafa ekki gengið svona langt áður," segir Örn Halldórsson, skólastjóri Selásskóla. Hann segir að áður hafi borð verið brotin niður og skiltum hent.

„Þetta er mjög leiðinlegt fyrir börnin sem eru að leggja vinnu í þetta."

Örn segir þó að það þýði ekki að láta deigan síga og útikennslustofan verði byggð upp á nýjan leik. - þeb





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×