Enski boltinn

Wayne Bridge og liðsfélagi Gylfa Þórs orðaðir við West Ham

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Demba Ba í leik með Hoffenheim.
Demba Ba í leik með Hoffenheim. Nordic Photos / Getty Images
West Ham ætlar að reyna að bjarga tímabilinu hjá sér með því að styrkja liðið í félagaskiptaglugganum í janúar.

Wayne Bridge er sagður mögulega á leið til West Ham frá Manchester City og þá á lánssamningi.

Hinir moldríku eigendur City eru sagðir hafa fyrirskipað aðhald í launamálum en vikulaun Bridge eru sögð um 90 þúsund pund. Hann hefur þó lítið sem ekkert verið notaður af Roberto Mancini knattspyrnustjóra að undanförnu.

Ólíklegt verður að teljast að West Ham geti borgað Bridge svo há laun og þyrfti þá City að koma til móts við félagið ef af láninu verður.

Senegalinn Demba Ba, leikmaður Hoffenheim í Þýskalandi, er einnig sagður á leið til West Ham. Ba er sóknarmaður sem er liðsfélagi Gylfa Þórs Sigurðssonar og er metinn á sex milljóinr punda.

Ba var orðaður við Aston Villa fyrr í mánuðinum en nú er talið líklegra að kappinn fari til Lundúna.

Ba og Gylfi Þór eru markahæstu leikmenn Hoffenheim með sex deildarmörk hvor.

West Ham kom sér úr botnsæti ensku úrvalsdeildarinnar með 3-1 sigri á Fulham í fyrradag en liðið er engu að síður enn í fallsæti með einungis sextán stig eftir nítján leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×