Innlent

Ragnheiður skilar gögnum um kostnað

Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Í ágúst 2009 var ákvæði bætt við lög um fjármál stjórnmálasamtaka, sem skyldaði Ríkisendurskoðun til að birta gögn um fjárframlög og kostnað vegna stjórnmálastarfs allt aftur til ársins 2002. Frambjóðendurnir sjálfir áttu að biðja stofnunina um að birta gögnin. Fréttablaðið/pjetur
Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Í ágúst 2009 var ákvæði bætt við lög um fjármál stjórnmálasamtaka, sem skyldaði Ríkisendurskoðun til að birta gögn um fjárframlög og kostnað vegna stjórnmálastarfs allt aftur til ársins 2002. Frambjóðendurnir sjálfir áttu að biðja stofnunina um að birta gögnin. Fréttablaðið/pjetur

 Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, skilaði í gær til Ríkisendurskoðunar gögnum um kostnað sinn vegna prófkjörs fyrir alþingiskosningarnar 2007.

Ragnheiði bar ekki skylda til að skila þessum gögnum, en gerði það svo ekki drægi úr trausti til setu hennar í þingnefnd sem á að bregðast við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögum um fjármál stjórnmálasamtaka átti Ríkisendurskoðun að taka við gögnum af þessu tagi fyrir 15. nóvember síðastliðinn og birta þau fyrir áramót. Ríkisendurskoðun er því hætt að taka við þeim.

Lárus Ögmundsson, skrifstofustjóri hjá Ríkisendurskoðun, segir að skoðað verði hvort stofnunin verður við beiðni Ragnheiðar, um að birta gögnin. Hins vegar sé Ragnheiði frjálst að birta þessi gögn upp á eigin spýtur. Stofnunin leggi hvort eð er ekkert mat á þau.

Ragnheiði var í gær boðið að birta gögnin í Fréttablaðinu, en hún sagðist vilja bíða niðurstöðu Ríkisendurskoðunar.

Til upprifjunar má geta þess að þrír borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins birtu gögn um prófkjörs­kostnað sinn í blaðinu í janúar, en þau voru í svipuðum sporum og Ragnheiður. - kóþ



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×