Innlent

Engin kvörtun borist ríkislögreglustjóra

JSS skrifar
Hefur gefið út reglur og leiðbeiningar um skráningu mála í lögreglukerfinu.
Hefur gefið út reglur og leiðbeiningar um skráningu mála í lögreglukerfinu.

Ekkert erindi hefur borist embætti ríkislögreglustjóra varðandi ásakanir þess efnis að skráningum brotamála hjá lögreglu sé breytt þannig að þær gefi ranga tölfræðilega mynd af eðli og tíðni brota.

Þetta segir Guðmundur Guðjónsson yfirlögregluþjónn hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Snorri Magnússon formaður Landssambands lögreglumanna hefur greint frá því að lögreglumenn gagnrýni breytingar á skráningum mála þannig að þau falli ekki undir þann brotaflokk sem þau ættu að teljast til. Þannig sé innbrot ekki innbrot nema að einhverju sé stolið. Ella sé það skráð sem eignaspjöll. Umferðarslys sé umferðarslys þurfi að kalla til sjúkrabíl, en árekstur meiðist einhver lítillega og leiti sér sjálfur hjálpar. Þá geti líkamsárás orðið aðstoð við borgarann finnist fórnarlamb liggjandi í blóði sínu en gerandinn sé á bak og burt.

„Þetta skekkir tölfræðina og þá þróun í fjölda afbrota sem á sér stað,“ segir Snorri. „Með öðrum orðum, þetta sýnir betri árangur en á sér raunverulega stað.“

Stefán Eiríksson lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu hefur brugðist við.

„Ég hef beðið dómsmálaráðuneytið að rannsaka þessar ásakanir sem eru grafalvarlegar og algjörlega úr lausu lofti gripnar,“ segir hann.

Að sögn Guðmundar hefur ríkislögreglustjóri gefið út reglur og leiðbeiningar um skráningu mála í lögreglukerfinu, meðal annars í þeim tilgangi að afbrotatölfræðin sé rétt og samræmd. Embættið gengur út frá því að lögreglustjórar vinni samkvæmt þeim. -jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×