Innlent

Fasteignaskattur og útsvar hækkaði mest á Álftanesi

Lægst er hlutfallið fasteignaskatts á 0,18 prósent á Seltjarnarnesi.
Lægst er hlutfallið fasteignaskatts á 0,18 prósent á Seltjarnarnesi.
Sextán sveitarfélög á landinu innheimta hærra hlutfall af fasteignamati íbúðarhúsnæðis í skatt á þessu ári en þau gerðu í fyrra.

Álftanes sker sig úr hvað hækkanir varðar, þar er fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði nú 0,4 prósent af fasteignamati en var 0,28 prósent árið 2009. Hækkunin er 42,86 prósent. Til hennar var gripið vegna þeirra miklu fjárhagserfiðleika sem Álftanes á nú við að eiga. Eins og kunnugt er hefur sveitarfélagið verið svipt eigin fjárforræði og því skipuð sérstök fjárhagsstjórn.

Af öðrum stærri sveitarfélögum hækkaði Árborg fasteignaskatt um 26,8 prósent, Kópavogur um 8,11 prósent, Akranes um 4,8 prósent og Akureyri um 4 prósent.

Álftanes er einnig með hæsta útsvar á landinu, 14,61 prósent. Almennt hámarksútsvar er 13,28 prósent en vegna fjárhagserfiðleikanna hefur er lagt sérstakt tíu prósent álag á útsvar Álftnesinga. Fimm prósenta álag vegna fjárhagserfiðleika er lagt á útsvar Bolvíkinga. Þar er prósentan nú 13,94 prósent.

Aðeins 16 af 77 sveitarfélögum í landinu eru með útsvarsprósentu undir 13,28 prósenta hámarkinu. Íbúar þriggja fámennra hreppa greiða lágmarksútsvar, 11,24 prósent, Það eru Skorradalshreppur, Ásahreppur og Helgafellssveit. Þrettán sveitarfélög eru á bilinu 11,24-13,28 prósent.

Fyrir utan Álftnesinga hækkuðu sjö sveitarfélög útsvarsprósentu sína milli áranna 2009 og 2010. Í þessum hópi eru Grindavík, Vogar, Svalbarðshreppur og Ölfushreppur. Íbúar þeirra greiða hámarksútsvar í ár en voru undir þeim mörkum á síðasta ári.

Upplýsingar um helstu breytingar sveitarfélaga á útsvari og fasteignaskatti er að finna í töflunum með fréttinni. Betri samanburður fæst við það að bera saman hækkanir milli ára en álagningarprósentu. Álagningin er hlutfall af fateignamati, sem aftur endurspeglar áætlað staðgreiðsluverð eigna. Sá sem býr í sveitarfélagi eins og Kópavogi þar sem skatturinn er 0,28 prósent af fasteignamati greiðir því líklegra fleiri krónur í skattinn af en íbúi í Breiðdalshreppi mundi greiða af sambærilegri eign þótt skatturinn þar sé er 0,625 prósent. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×