Innlent

Um milljón manns frá 150 löndum hafa skoðað eldgosið í beinni

Af vef Mílu í dag. Eyjafjallajökull frá Fimmvörðuhálsi.
Af vef Mílu í dag. Eyjafjallajökull frá Fimmvörðuhálsi.
Um milljón manns frá 150 löndum hafa skoðað eldgosið á Eyjafjallajökli á heimasíðu Mílu frá því fyrsta myndavélin var sett upp á Hvolsvelli í síðasta mánuði. Í kringum 62% heimsóknanna koma frá Íslandi en það þýðir jafnframt að um 38% heimsókna koma erlendis frá. „Trúlegast er um Íslandsmet í heimsóknum á heimasíðu að ræða og eru vinsældir síðunnar hreint ótrúlegar," segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Míla brást hratt við þegar eldgosið hófst á Eyjafjallajökli og kom fyrir myndavélum á Hvolsvelli og á Þórólfsfelli þar sem áhugasamir gátu skoðað eldgosið í beinni útsendingu. Síðar var komið fyrir myndavél á Fimmvörðuhálsi, nær gosstöðvunum og nú síðast frá Þórsmörk þannig að mögulegt verði að skoða gosið frá mörgum hliðum. Myndavélin notast við sambönd á fjarskiptaneti Mílu frá umræddum stöðum.

„Stöðug útsending frá gosstað er nýlunda á Íslandi og eru gögn þau er verða til í gegnum upptökur Mílu ómetanlegar fyrir vísindasamfélagið á Íslandi. Vefsíðan hefur sannað gildi sitt fyrir hinn almenna borgara til þess að fylgjast með gosinu en er jafnframt verðmæt upplýsingaveita fyrir ýmsar rannsóknarstofnanir eins og Veðurstofu Íslands, Raunvísindastofnun, Björgunarsveitir, Almannavarnir ríkisins og fleiri. Afrakstur beinna útsendinga frá gosinu eru að auki frábær landkynning fyrir Ísland."

Þá segir í tilkynningunni að Mílu hafi borist fjölmargir tölvupóstar frá ýmsum löndum, þar sem fyrirtækinu er þakkað sérstaklega fyrir þessa óvenjulegu þjónustu. Hægt er að skoða myndskeið af gossvæðinu hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×