Innlent

Segir Seðlabankann og FME hvetja til lögbrota

Marinó G. Njálsson.
Marinó G. Njálsson.

„Ég fæ ekki betur séð en að Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið séu að hvetja til lögbrota," segir Marinó G. Njálsson, hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, um tilmæli sem Seðlabankinn og FME beina til fjármálafyrirtækja vegna gengistryggðra lánasamninga og var tilkynnt um í morgun.

Þar kom fram að fyrirtækin ættu að miða við vexti sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum. Þeir vextir eru nú 8,25 prósent.

Marinó telur þessi tilmæli brjóta í bága við samningalögin. Vitnar hann í 36. grein laganna sem hljóða svo:

„Skriflegur samningur, sem atvinnurekandi gefur neytanda kost á, skal vera á skýru og skiljanlegu máli. Komi upp vafi um merkingu samnings sem nefndur er í 1. mgr. 36. gr. a skal túlka samninginn neytandanum í hag."

„Samkvæmt þessum lögum á óvissan að falla neytendum í hag," segir Marinó og bætir við að Seðlabanki Íslands og FME gætu með þessu skapað sér skaðabótaábyrgð.

Aðspurður hvað sé til ráða segir Marinó að einn möguleiki í stöðunni sé sá að samtök ASÍ, Neytendasamtökin og FÍB, óski eftir lögbanni á að bankarnir fylgi þessum tilmælum.

Spurður hvort það sé raunverulegt úrræði sem mögulegt sé að beita svarar hann: „Þessu hefur aldrei verið beitt áður. En forsetinn hafði aldrei beitt neitunarvaldi fyrr en fyrir örfáum árum síðan."

Búast má við yfirlýsingu frá Hagsmunasamtökum heimilanna í dag vegna málsins.




Tengdar fréttir

Samningar verði endurreiknaðir miðað við vexti Seðlabankans

Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands hafa sent fjármálafyrirtækjum þau tilmæli að þeim beri að endurreikna þau lán sem innihalda gengistryggingarákvæði sem eru óskuldbindandi samanber dóma Hæstaréttar. Ekki verði miðað við upphaflega vexti lánanna sem í mörgum tilvikum voru í kringum þrjú prósent, heldur vexti sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum sem nú gilda á lánamarkaði. Á vef Seðlabanka Íslands kemur fram að lægstu vextir á almennum óverðtryggðum útlánum er um 8,25% en á verðtryggðum lánum eru vextirnir 4,80%.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×