Enski boltinn

Hughes hæstánægður með sigurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mark Hughes.
Mark Hughes. Nordic Photos / Getty Images

Mark Hughes var hæstánægður með að lið hans vann loksins á útivelli og kom sér þar með úr fallsæti í ensku úrvalsdeildinni.

Fulham vann 2-0 útisigur á Stoke í dag en það var fyrsti sigur liðsins á útivelli í 27 tilraunum eða síðan í ágúst í fyrra.

Chris Baird skoraði bæði mörk Fulham á fyrstu tíu mínútum leiksins.

„Mér fannst við standa okkur vel í dag og það voru allir sem stóðu fyrir sínu í dag. Vörnin okkar var sérstaklega góð," sagði Hughes.

„Það er langt síðan að Fulham vann á útivelli og okkur er létt. Þetta var mikilvægur sigur og við getum byggt á honum."

Hughes varð fyrir vonbrigðum með það að kollegi hans, Tony Pulis, þakkaði honum ekki fyrir leikinn að honum loknum.

„Hann tók ekki í höndina mína og ég var ekki ánægður með það. Hann er sjálfsagt að svara fyrir sig því ég kom fram við hann á svipaðan máta síðast þegar við mættumst."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×