Enski boltinn

Ferguson stólar á reynsluna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Alex Ferguson, stjóri Manchester United, ætlar að veðja á að reynslan muni hafa betur gegn ungu liði Chelsea þegar liðin mætast í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

United er á toppi deildarinnar með 34 stig og þar að auki leik til góða. Arsenal og City koma næst með 32 stig og Chelsea er svo í fjórða sæti deildarinnar með 31 stig eftir að hafa ekki unnið leik í ensku úrvalsdeildinni síðan liðið vann Fulham þann 10. nóvember. Chelsea hefur semsagt ekki unnið í fimm leikjum í röð auk þess sem liðið tapaði fyrir Marseille í Meistaradeild Evrópu.

„Chelsea hefur verið að láta 1-2 unga leikmenn spila sífellt meira og má kannski skrifa þetta slæma gengi á það," sagði Ferguson.

„Félagið lét samninga leikmanna eins og Michael Ballack og Juliano Belletti renna út og ungir leikmenn eins og Daniel Sturridge og Josh McEachran hafa komið í þeirra stað."

„Þeir ætluðu sér greinilega að gefa þessum ungu leikmönnum fleiri tækifæri og er það gott mál. En þetta getur farið illa ef að meiðsli koma upp í leikmannahópnum," bætti Ferguson við en John Terry og Frank Lampard hafa báðir verið mikið frá vegna meiðsla.

„Við erum með góða leikmenn í dag og þeir njóta allir góðs af því að hafa spilað marga stóra leiki í gegnum tíðina. Þetta er því ekkert nýtt fyrir þeim," sagði Ferguson um eigið lið. „Reynslan er mikilvæg en þessir leikmenn eru enn hungraðir í árangur."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×