Innlent

Yfir 2.500 manns verið án atvinnu í eitt ár eða lengur

Atvinnuleysi mælist svipað á landinu nú og á sama tíma í fyrra. Hlutfallið hefur minnkað yfir sumarmánuðina, úr 9 prósentum í apríl síðastliðnum og niður í um 7,7 prósent í júní.

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að um árstíðarbundinn mun sé að ræða, en vonast til þess að atvinnuleysi muni ekki mælast meira en 8,5 prósent á árinu 2010.

„Það er að mælast minna atvinnuleysi en spár sögðu til um," segir Gissur. „Þó má búast við því að það verði jafn mikið eða meira en í fyrra, þar sem það mældist 8 prósent yfir allt árið 2009."

80 prósent þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun eru annaðhvort ófaglærðir eða með stúdentspróf. Einungis 10 til 12 prósent eru háskólagengin og segir Gissur hlutfall ómenntaðra hækka eftir því sem aldurinn er lægri, en um 70 prósent ungs fólks á skrá eru einungis með grunnskólapróf. Um 2.500 manns á höfuðborgarsvæðinu hafa verið atvinnulausir í ár eða lengur og var heildarupphæð útborgaðra atvinnuleysisbóta fyrir árið 2009 25,3 milljarðar króna, en til samanburðar voru það 3 milljarðar árið 2007.

Kristín S. Óladóttir, framkvæmdastjóri ráðningarstofunnar Hagvangs, segir þó nokkuð vera um að fólk á atvinnuleysisskrá leiði hjá sér atvinnutilboð.

„Það er algengara að eldra fólk taki því sem býðst og setji ekki fyrir sig laun eða vinnutíma," segir Kristín. „Það er eitthvað um að yngra fólk neiti störfum og okkur finnst sérstakt hvað það er hægt lengi, eins og ástandið er."

Kristín tekur fram að verið sé að bjóða fólki störf sem það langi ekki til að þiggja og sé þar af leiðandi lengur á atvinnuleysisskrá.

Gissur Pétursson segir aftur á móti að ekki sé mikið um að fólk sleppi vinnutilboðum og kerfið bjóði einfaldlega ekki upp á það.

„Þú hefur möguleika á neitun fyrstu fjórar vikurnar," segir hann. „Auðvitað viljum við ekki pína fólk til neins - en það á enginn að komast upp með að vera á atvinnuleysisbótum að óþörfu."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×