Innlent

Þórunn Sveinbjarnardóttir: Nauðsynlegt að fækka ráðuneytum

Þórunn Sveinbjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, áréttaði í ræðu sinni á eldhúsdagskráumræðum á Alþingi, að það væri nauðsynlegur hluti af því að stoppa upp í rúmlega 40 milljarða fjárlagagat að fækka ráðuneytum og sameina önnur.

Þá talaði hún fyrir því að koma á sérstökum bankaskatti og tók sem dæmi að Landsbankinn hefði þénað 90 milljónir á dag fyrstu þrjá mánuði á árinu. Þá þénuðu bankarni 51 milljarð á síðasta ári. Hún sagði það aðeins sanngjarnt að bankarnir kæmu til móts við skuldug heimilin.

Þá svaraði Þórunn gagnrýni Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, sem sagði ríkisstjórnina upptekna af smámálum og forgangsraðaði vitlaust.

Þórunn sagði að hér væru ekki um smámál að ræða og tók sem dæmi ein hjúskaparlög, bann við nektardansi og skipan hæstaréttar- og héraðsdómara.

„Einhver hefði sagt hallelúja af minna tilefni," sagði Þórunn síðan.

Þórunn sagði í ræðu sinni að það væri einnig mikilvægt af þingi og stjórnsýslu á Íslandi að taka mið af rannsóknarskýrslu Alþingis til þess að endurvinna traust almennings á Alþingi.

Þá gerði Þórunn atvinnuleysið einnig að umtalsefni og sagði mikilvægt að skapa fjölbreytt störf til þess að leysa vandann.

Að lokum sagði Þórunn að til stendur að leggja fram nýtt frumvarp um vatnsréttindi. Það verður iðnaðarráðherra sem leggur það fram.


Tengdar fréttir

Vill auka traust á Alþingi með því að forgangsraða

Traust á Alþingi og á þingstörfunum hefur verið í algjöru lágmarki undanfarin misseri, sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Hann sagði að þetta væri grafalvarlegt mál og brýnt væri að bæta úr þessu.

Segir umsátur ríkja um heimilin

Það ríkir umsátur um heimilin í landinu, sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Hann sagði að í stað þess að slá skjaldborg um heimilin hefði verið slegin skjaldborg um kröfuhafa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×