Lífið

Íbúar aldrei haft áhrif á nafnbreytingar

„Það eru ekki fordæmi fyrir því að haft sé samráð við íbúa vegna nafnbreytinga, en að sjálfsögðu er tekið tillit til ólíkra sjónarmiða þar sem það á við," segir Sóley Tómasdóttir, fulltrúi vinstri grænna í skipulagsráði Reykjavíkur.

Fréttablaðið greindi frá því í gær að Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Eyktar og Höfðatorgs, væri ósáttur við að nafni Höfðatúns yrði breytt í Katrínartún. Pétur hefur átt fund með Júlíusi Vífli Ingvarssyni, formanni skipulagsráðs, þar sem hann óskaði eftir að nafnið Höfðatún héldi sér. Júlíus sagði ekki útilokað að Katrínartúni yrði skipt í tvennt og yrði áfram Höfðatún frá Borgartúni og niður að Sætúni.

Sóley bendir á að nafnbreytingar á götum hafi oft verið gerðar. „Mun oftar en fólk gerir sér grein fyrir," segir hún.

Skipulagsráð Reykjavíkur hefur samþykkt nafnbreytingar á götum í Túnunum til að minnast þess að fyrir 101 ári voru fyrstu konurnar kjörnar í bæjarstjórn í Reykjavík. Eins og Sóley bendir á eru hefur götunöfnum oft verið breytt í Reykjavík. Suðurgatan í Reykjavík hét Kirkjugarðsstræti, Kærleiksstígur, Skildinganesgata og loks Suðurgata. - afb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×