Lífið

Komin á samning í Þýskalandi

Tónlist tvíeykisins BB & Blake verður gefin út í Þýskalandi í næstu viku. Þýska útgáfufyrirtækið Athletikk gefur plötuna út.  Fréttablaðið/Valli
Tónlist tvíeykisins BB & Blake verður gefin út í Þýskalandi í næstu viku. Þýska útgáfufyrirtækið Athletikk gefur plötuna út. Fréttablaðið/Valli
Hljómsveit Veru Sölvadóttur og Magnúsar Jónssonar reynir fyrir sér í Þýskalandi með útgáfu á dansvænni plötu.

Plata með tvíeykinu BB & Blake verður gefin út hjá þýska útgáfufyrirtækinu Athletikk á næstunni. Hún inniheldur fjórar ólíkar útgáfur af laginu Paris je t'aime. Tónlistar­mennirnir Lars Sommer­feld, Edgar 9000 og Kerosene sjá um að endurvinna lögin.

Vera Sölvadóttir og Magnús Jónsson skipa sveitina sem hefur legið í dvala undanfarna mánuði. „Við erum að vakna aðeins til lífsins aftur núna. Maggi er búinn að vera fyrir norðan að leika í Rocky Horror og við höfum þess vegna lítið getað sinnt BB & Blake," útskýrir Vera. Hún segir plötuna sem Athletikk gefur út vera mjög dansvæna og sverja sig í ætt við klúbbatónlist.

„Við erum mjög spennt fyrir þessum samningi því þeir eru mjög tengdir inn í þennan stóra dansheim sem er í Þýskalandi og við hlökkum til að vinna meira með þeim í framtíðinni." Platan kemur út í Þýskalandi í næstu viku og verður einnig fáanleg á netinu.

Annars er það að frétta af BB & Blake að þau hafa samið nýtt lag sem þau hyggjast gera myndband við í desember. „Við erum að fara á dansnámskeið í næstu viku þar sem við lærum dívudans sem kallast waacking," segir Vera hlæjandi og bætir við: „Þetta verður eitthvað forvitnilegt, ég og Maggi að dansa dívudansa."

sara@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.