Enski boltinn

Tevez hafnaði 70 milljóna punda samningi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Carlos Tevez mun hafa hafnað nýju samningstilboði frá Manchester City. Sá samningur hefði átt að gilda í fimm ár og færa Tevez meira en 300 þúsund pund í vikulaun - samtals meira 70 milljónir á samningstímanum.

Tevez hefði þar með orðið launahæsti leikmaður heims enda um ótrúlegar upphæðir að ræða. Í íslenskum krónum yrðu vikulaunin meira en 54 milljónir króna og heildarlaunin á þrettánda milljarð.

Tevez fékk þetta samningstilboð í hendurnar fyrr á tímabilinu en það er Soccernet sem hefur þetta eftir sínum heimildum.

Um síðustu helgi ákvað Tevez svo að leggja inn formlega beiðni um að verða settur á sölulista. Því hafnaði Manchester City umsvifalaust.

Tevez hélt því fram í yfirlýsingu að beiðni hans snerist ekki um peninga og hann þakkaði Mansour sjeik, eiganda City, fyrir „afar rausnarlegt tilboð sem hann bauð mér."

Þeir Tevez og Roberto Mancini, stjóri City, munu hafa funduðu á föstudaginn en ekki hefur verið greint frá því hvort niðurstaða lægi fyrir eftir fundinn. Tevez mun þó hafa verið hinn rólegasti eftir fundinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×