Innlent

Auðir seðlar flokkaðir sérstaklega

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Búist er við að einhverjir óánægðir kjósendur sýni þann hug í verki með auðum kjörseðli á morgun. Formaður yfirkjörstjórnar segir að auðir seðlar verði sérstaklega flokkaðir og taldir.

Í júní 2004 þegar Ólafur Ragnar Grímsson var endurkjörinn forseti í annað sinn var óvenjumikið um ógilda kjörseðla, en stuttu áður hafði forsetinn tekið umdeilda ákvörðun og synjað fjölmiðlalögum staðfestingar. Auðir seðlar voru taldir sérstaklega í það skiptið og fjöldi þeirra gefinn upp jafnóðum eftir að kjörstöðum hafði verið lokað, en 21 prósent skiluðu þeirra sem greiddu atkvæði skiluðu auðu þá.

Kjörstjórnir hafa alltaf talið auða seðla sér. Hins vegar hefur það tíðkast í mörg ár að flokka auða seðla með ógildum og því hefur almenningur ekki fengið sundurliðaðar tölur um fjölda auðra seðla, aðeins samtölu auðra seðla og ógildra, en í hugum sumra felst ákveðin afstaða í því að skila auðu og það ekki jafngilda ógildum seðli þótt lögin geri ráð fyrir að auðir seðlar séu ógildir.

Að sögn Kristínar Edwald, formanns yfirkjörstjórnar í Reykjavík, verða auðir kjörseðlar taldir sérstaklega í kosningunum á morgun og fjöldi þeirra gefinn upp. Kristín segir hins vegar að gera megi ráð fyrir að ekki náist að gefa upp hlutfall auðra seðla í fyrstu tölum eftir lokun kjörstaða.

Hún segir að tekin verði ákvörðun um hvort birta eigi jafnóðum fjölda auðra kjörseðla, eftir að talning hefst á morgun, en það velti m.a á fjölda þeirra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×