Lífið

Vilt þú ókeypis ferð til London

Kings Of Leon.
Kings Of Leon.

Símtölunum rignir inn á útvarpsstöðinni X-977 þessa dagana, enda hófst þar á mánudaginn Kings Of Leon-leikur þar sem verðlaunin eru lúxusferð til London á tónleika með sveitinni.

Í hvert skipti sem lag með Kings Of Leon er spilað á X-inu þá fer tíundi hlustandinn sem hringir inn í pott sem dregið verður úr 15. desember.

„Við spilum svona tíu lög með þeim á dag og í hvert skipti eru línurnar glóandi. Við erum ennþá að svara í símann tveimur lögum seinna. Það hefur svosem aldrei verið símtalahallæri hérna en þetta er glæsilegt," segir Ómar Eyþórsson, dagskrárgerðarmaður á X-977.

Það er svosem ekki skrýtið enda er leikurinn í samstarfi með Tuborg, Ring og Icelandair og verðlaunapakkinn flottur. Innifalið í honum er flug og gisting fyrir tvo, miðar og ferð á tónleikana og partý í O2-tónleikahöllinni. Svo til að undirstrika pakkann hefst ferðin á limmóferð í Leifsstöð.

Ómar á X-inu liggur í símanum þessa dagana.
„Það er gaman að geta boðið upp á alvöru pakka. Ekki bara prump í vatnsglasi. Og þessi leikur verður sá fyrsti af mörgum. Það eru fimm eða sex svona ferðir framundan á tónleika víðs vegar um heiminn," segir Ómar á X-977.

Leyfilegt er að ná nafninu sínu oftar en einu sinni í pottinn. „Algjörlega. Miði er möguleiki. Við drögum bara 15. desember og það verður ekkert fiff," segir Ómar.

Fyrir þá sem heyra lag með Kings Of Leon á X-inu er síðan rétt að minna á það að síminn þar er 517 0977.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.