Innlent

Laugavegshlaupið er um næstu helgi

Marathon.is
Á laugardaginn verður Laugavegshlaupið. En það er aðeins fyrir vel æfða hlaupara. Hlaupið í ár er það fjórtánda í röðinni en frá upphafi hefur það verið haldið af Reykjavíkurmaraþoni. Alls eru 310 hlauparar skráðir til keppni í ár 83 konur og 227 karlar. Íslenskir þátttakendur eru 233 talsins og frá öðrum löndum 77.

Laugavegshlaupið hefst í Landmannlaugum og lýkur í Húsadal í Þórsmörk. Laugavegurinn er ein fjölfarnasta og vinsælasta gönguleiðin um íslensk öræfi. Venjan er að ganga leiðina á fjórum dögum en met hlauptími á þessari 55 km leið í Laugavegshlaupi er 4 klukkustundir og 20 mínútur í karlaflokki og 5 klukkustundir og 31 mínúta í kvennaflokki, segir í tilkynningu.

Hlaupið hefst við skála Ferðafélags Íslands í Landmannalaugum, laugardaginn 17. júlí 2010 klukkan 9.00 og lýkur við skála Farfugla í Húsadal í Þórsmörk. Tímamörk eru í hlaupinu og þurfa hlauparar að vera komnir í Álftavatn (22 km) á innan við 4 klukkustundum og í Emstrur (34 km) á innan við 6 klukkustundum. Það er því aðeins fyrir vel æfða hlaupara að taka þátt í þessari miklu þolraun.

Heimildarmynd var gerð um hlaupið í fyrra, hana er hægt að skoða hér á heimasíðu hlaupsins: http://www.marathon.is/midlar/myndband.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×