Íslenski boltinn

Andri: Hræddir við að taka af skarið

Valur Smári Heimisson skrifar
Andri Marteinsson.
Andri Marteinsson.

Andri Marteinsson, þjálfari Hauka, var ósáttur við að hafa ekki náð stigi í Vestmannaeyjum í dag. ÍBV vann þá 3-2 sigur.

Haukar komust yfir með marki snemma leiks og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. En Eyjamenn náðu að jafna áður en flautað var til hálfleiks og komust svo í 3-1 forystu í þeim síðari.

„Ég er alls ekki sáttur við síðari hálfleikinn hjá okkur," sagði Andri. „Við leyfðum Eyjamönnum að spila sinn leik og brugðumst of seint við því sem þeir voru að gera. Við vorum alltaf skrefinu á eftir. Þeir náðu að halda okkur til baka og við vorum bara hræddir við að taka af skarið og setja smá pressu á þá."

„Annars fannst mér Eyjamenn arfaslakir í fyrri hálfleik og þegar menn nýta ekki sénsana sem við fengum þá er þeim yfirleitt refsað fyrir það. Mér fannst Eyjamenn koma vel til baka og þegar þeir gerðu það vorum við einfaldlega í vandræðum með þá."

Haukarnir fengu góð færi í fyrri hálfleik en nýttu aðeins eitt. „Þetta er bara eins og í síðasta leik. Við höfum verið að fá mörg góð færi en náum ekki að nýta þau."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×