Innlent

Handtekinn fyrir líkamsárás í Austurstræti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Karlmaður á fertugsaldri var handtekinn í Austurstræti í nótt eftir að hann hafði ráðist á tvo menn á þrítugsaldri og nefbrotið annan þeirra. Árásarmaðurinn var í annarlegu ástandi og var látinn gista fangageymslur yfir nótt.

Annars hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í nógu að snúast í nótt því að tveir menn voru fluttir með sjúkrabíl á slysadeild eftir harðan árekstur Volswagen Caravelle bifreiðar og Nissan Almera á Miklubraut laust eftir klukkan ellefu í gærkvöld. Þá fóru tveir aðrir á slysadeild af eigin rammleik. Töluverð umferðarteppa myndaðist á Miklubrautinni eftir áreksturinn. Vísi er ókunnugt um tildrög slyssins.

Þá hafði lögreglan afskipti af 27 ára gömlum karlmanni við Fögrukinn í Hafnarfirði í nótt vegna umferðarlagabrots. Sá hafði ekið á móti einstefnu. Það sem vakti þó helst athygli lögreglumanna, var að þó að karlmaðurinn væri kominn langt á þrítugsaldur, ók hann þrátt fyrir að hafa aldrei tekið ökupróf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×