Íslenski boltinn

Heimir: Átti von á erfiðum leik

Valur Smári Heimisson skrifar

Heimi Hallgrímssyni, þjálfara ÍBV, var létt eftir sigur sinna manna á Haukum á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í dag.

Haukar komust yfir snemma í leiknum og voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik. ÍBV náði þó að jafna í lok fyrri hálfleiksins og tóku svo öll völd á vellinum í þeim síðari.

„Ég vissi að þetta myndi verða erfiður leikur, sérstaklega þar sem við fengum þennan skell gegn FH í síðasta leik. Þá vissi ég að menn ætluðu að sýna sig og það var svolítill yfirsnúningur á mönnum í dag. Við vorum mikið úr stöðunum okkar, sérstaklega í fyrri hálfleik þar sem Haukarnir spiluðu alveg í gegnum okkur. Við áttum í raun í mestu vandræðum með þá."

„Haukarnir hefðu alveeg getað klárað leikinn í fyrri hálfleik og voru í raun aular að gera það ekki. En í lok fyrri hálfleiks og allan síðari hálfleikinn fannst mér aldrei spurning um hvort liðið væri betra. Þetta tók tíma og við vorum bara heppnir að vera ekki fleiri mörkum undir eftir fyrri hálfleikinn."

Eyjamenn hafa nú fengið á sig fimm mörk í síðustu tveimur leikjum en fyrir þá hafði ÍBV aðeins fengið á sig tíu mörk í deildinni í sumar.

„Þó svo að við séum að fá á okkur mörk núna þá er ekkert endilega að klikka í varnarleiknum. En ég tek ekkert af Haukunum - þeir áttu alveg skilið að skora fleiri mörk í dag því þeir voru að spila flottan bolta. En það er ekkert að klikka hjá okkur - við getum ekki ætlast til þess að fara í alla leiki án þess að fá á okkur mark."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×