Innlent

Segir göngulax enda í silunganetum

Þorsteinn Sigfússon, svæðisstjóri Orkubús Vestfjarða á Hólmavík, hefur óskað eftir því að sveitarstjórn Strandabyggðar hætti að gefa út leyfi fyrir lagningu silunganeta úti fyrir þorpinu.

Þorsteinn segir að áratuga löng hefð sé fyrir því að hver sem er geti fengið leyfi til að leggja silunganet í landi sveitarfélagsins úti fyrir Hólmavík. Þetta hafi margir nýtt sér. Þorsteinn, sem annast sölu veiðileyfa í Víðidalsá, skammt sunnan við Hólmavík, segir vandamálið hins vegar það að lax úr nærliggjandi ám í Steingrímsfirði rati iðulega í silunganetin, sérstaklega fyrstu laxagöngur sumarsins.

„Þetta er meira og minna lax sem menn hafa verið að fá í þessi net. Á sama tíma er sveitarfélagið sjálft ásamt Orkubúinu að selja veiðileyfi í Víðidalsá. Eftir því sem minna af laxi nær að ganga í ána því minni arð fá þessir aðilar af veiðinni," segir Þorsteinn og undirstrikar að sveitarfélagið veiti leyfi til netalagna endurgjaldslaust.

Lagður er fjöldi neta í landi annarra landeigenda í Steingrímsfirði. Þorsteinn segir að þótt það hafi ekki úrslitaáhrif að hætt verði að leggja net fyrir landi Strandabyggðar sé mikilvægt að sveitarfélagið sýni gott fordæmi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×