Innlent

Atli sat hjá

Atli Gíslason, þingmaður VG og formaður þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.
Atli Gíslason, þingmaður VG og formaður þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Mynd/Pjetur
Afstaða Atla Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna, varð til þess að ekki náðist meirihluti innan uppgjörsnefndar Alþingis um að rannsaka á ný einkavæðingu ríkisbankanna. Atli sat hjá við afgreiðslu málsins.

Rannsóknarnefnd Alþingis skoðaði ekki sérstaklega hvernig staðið var að einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans um síðustu aldamót en málið hefur verið harðlega gagnrýnt á undanförnum árum.

Með hliðsjón af þessu lögðu fjórir nefndarmenn í uppgjörsnefnd Alþingis það til að einkavæðingarferlið verði rannsakað sérstaklega. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks lögðust hins vegar gegn þessari tillögu en Atli Gíslason, formaður nefndarinnar, sat hjá og því náðist ekki meirihluti innan nefndarinnar.

Sjálfstæðismenn líta svo á málið sé fullkannað og að frekari rannsókn skili samfélaginu engu. Framsóknarmenn taka undir þetta álit en lýsa ennfremur í bókun sinni yfir vanþóknun á störfum þeirra ráðherra sem stýrðu einkavæðingunni á sínum tíma.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, hefur lýst því yfir að hún vilji láta rannsaka einkavæðinguna og er því ekki sátt við þessa niðurstöðu. Þetta hafði hún um málið að segja að loknum þingflokksfundi sSmfylkingarinnar í gær. „Það vekur athygli mína að minnsta kosti tveir flokkar vilja ekki fara í rannsókn á einkavæðingu á bankakerfinu."

Fréttastofa hafði samband við Atla Gíslason í dag en Atli ætlar ekki tjá sig um störf nefndarinnar fyrr en hann er búinn að gefa Alþingi munnlega skýrslu um málið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×